Heilbrigðis- og velferðarmál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunum sjúklinga sé best borgið í blönduðu kerfi undir forsjá hins opinbera. Ekki skal breyta þeirri grundvallarstefnu, en nýta beri kosti ólíkra rekstrarforma til að bæta þjónustu og útrýma biðlistum. Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að aldraðir fái viðeigandi stuðning og þjónustu sem miðar að þörfum hvers og eins.
Áhersla skal lögð á endurhæfingu hvers einstaklings sama hvar sem hann kýs að búa, á eigin heimili eða á dvalar- og öldrunarheimilum, forvarnir verði lykilatriði þegar tryggja á aðgengi að innihaldsríku lífi á efri árum.
Eitt af höfuðbaráttumálum flokksins er gjaldfrjáls heilbrigðisskimun fyrir alla 40 ára og eldri á þriggja ára fresti. Heilbrigðisskimanir eru hagkvæmar og gætu orðið mikilvægur liður í því að bæta lýðheilsu og heilbrigði þjóðarinnar. Með heilbrigðisskimunum er hægt að grípa fyrr inn í þegar sjúkdómar og hættur steðja að. Þeir sem eru yngri en 40 ára eigi einnig rétt á heilbrigðisskimun gegn greiðslu. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gengið til samninga við einkareknar sjúkrastofnanir þar sem það á við til þess að vinna bug á biðlistum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá samþjöppun þjónustu og hún færð nær notendum þjónustunnar. Bið eftir tíma hjá heimilislækni er of löng og efla þarf heilsugæslu m.a. með samstarfi við einkareknar heilsugæslustöðvar. Gæta þarf þess að stafrænar lausnir komi ekki alfarið í veg fyrir persónulega þjónustu.
Leggja skal áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðir líkt og heilbrigðisskimanir og eftirlit verði stóraukið meðal annars með skimun fyrir krabbameinum.
Mikilvægt er að standa vörð um réttindi íbúa landsins til þess að sækja þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem skimun fyrir krabbameinum er án tilkostnaðar fyrir viðkomandi. Þá er nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd samfelldri skimun fyrir krabbameinum í ristli, brjósta- og leghálskrabbameini og tryggja öryggi hennar og gæði.
Miðflokkurinn telur geðsjúkdóma ekki hafa fengið þá athygli sem nauðsynlegt er. Tryggja verður samræmdar aðgerðir með þeim sem best þekkja til t.d. Geðhjálp, Pieta samtökunum ofl. til að finna lausnir og ráð við þessum földu sjúkdómum.
Taka þarf frá pláss í skipulagi þannig að ekki verði þrengt að uppbyggingarmöguleikum framtíðarsjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu og hafist verði handa við undirbúning nú þegar. Við staðarval verði horft til breytinga sem orðið hafa á skipulagi og uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins. Sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði efld verulega með nútíma tækjabúnaði, læknum og hjúkrunarfólki ásamt því að standa vörð um aðgengi íbúa landsins að góðri þjónustu í heimabyggð. Tryggja þarf að allir landsmenn eigi rétt á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Til að tryggja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni kemur til greina að horfa til afkomu viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna t.d. launa- og/eða skattalega og/eða í gegnum námslánakerfið. Heilsugæslan skuli vera fyrsta stopp.