Gæsla landamæra og málefni hælisleitenda og flóttamanna
Miðflokkurinn vill ný lög um útlendingamál þar sem lögð verður áhersla á vilja og hagsmuni þjóðarinnar. M.a. er lagt til tímabundið fimm ára stopp við veitingu hælisumsókna og að enginn sem komi hingað frá öruggu ríki fái hér hæli. Þetta er gert til að ná tökum á gríðarlegum fólksflutningum hingað til lands, sem valdið hafa ofhitnum í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfunum og leitt til alvarlegs húsnæðisskorts með tilheyrandi verðhækkunum sem bitnar á öllum almenningi. Þeir sem koma hingað til lands með ólöglegum hætti eiga ekki rétt á sækja um hæli og vísa skal þeim úr landi umsvifalaust.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að styðja fólk á heimaslóð þar sem fé nýtist sem best og taka við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Það er fyrirkomulag sem var hér við lýði um áratugaskeið og í góðri sátt. Taka ber vel á móti þeim sem hér fá hæli með þeim hætti, en með óbreyttu fyrirkomulagi tapa allir og andúð á innflytjendum mun aukast, samanber reynslu annarra þjóða. Við Íslendingar verðum og þurfum að geta lært af reynslu annarra. Hælisumsóknum fjölgar og eru gríðarlega margar í sögulegu samhengi . Þessa þróun verður að stöðva svo ekki komi til svipaðs ástands og ríkt hefur víða í Evrópu. Miðflokkurinn leggur áherslu á eflingu löggæslu og landamæravörslu á flugvöllum og höfnum landsins s.s. Akureyri, Egilsstöðum og Seyðisfirði.
Framkvæmd verði rannsókn á atvinnuþátttöku útlendinga á Íslandi þar sem fram komi upprunaland, hvort viðkomandi komi frá EES ríki eða hafi dvalarleyfi á öðrum forsendum, sbr. rannsókn sem gerð var í Danmörku.
Útgjöld ríkissjóðs til málefna hælisleitenda og flóttamanna verði hamin og skilvirkni í málsmeðferð aukin. Þá hafi hælisleitendur engin réttindi umfram íslenska ríkisborgara s.s. þjónustu, samgöngugreiðslur ofl.
Leggja skal áherslu á að Dyflinnar-samkomulagið verði að fullu nýtt. Stórefla þarf því lögregluna í landinu og bregðast við bráðavanda með auknu fjármagni og heimildum til að takast á við þessa ógn og vegna fjölmargra nýrra áskorana.
Aukning skipulagðra glæpa og vísbendingar um aukna starfsemi erlendra glæpahópa hérlendis hafa verið staðfestar af lögreglu og kalla á öflug viðbrögð í löggæslu s.s. forvirkar rannsóknir.
Tímabært er að velta því upp hvort taka eigi Schengen-samkomulagið og aðild Íslands að því til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi reynslunnar. Stoppa þarf í öll göt þar sem dvalarleyfi vegna háskólanáms eða sérfræðikunnáttu eru misnotuð. Taka þarf á þessum málum með festu og skynsemi. Stjórnvöld leiti leiða til að draga úr straumi innflytjenda til Íslands á öllum sviðum, einnig þegar kemur að fólki sem hingað kemur til vinnu á grundvelli EES-samningsins. Meta þarf vel raunverulegan efnahagslegan ávinning og líta til annarra hagrænna þátta en aðeins hagvaxtar enda er hann aðeins hluti af stærri mynd. Innflytjendum hefur fjölgað of ört á Íslandi á meðan fæðingartíðni heimamanna dregst saman og að óbreyttu stefnir í lýðfræðilegt óefni. Hætta er á miklum neikvæðum áhrif á samheldni í íslensku þjóðfélagi.
Skýr krafa um íslenskukunnáttu skal mæta öllum innflytjendum á sem allra flestum sviðum íslensks samfélags. Þar þarf hið opinbera að leggja sitt af mörkum með því að einskorða notkun erlendra tungumála á vettvangi hins opinbera eða í hvers konar þjónustu við ýtrustu þörf svo sem í tengslum við heilbrigðismál eða önnur viðkvæm svið mannlífsins.
Miðflokkurinn vill endurskoða gjafastefnu Alþingis á ríkisborgararéttinum. Hafi einstaklingur sótt um hæli og fengið neitun frá útlendingastofnun á viðkomandi ekki að geta sótt um ríkisborgararétt til Alþingis.