Málefni aldraðra – frá starfslokum til æviloka

  • Miðflokkurinn vill standa við gefin fyrirheit til eldri borgara um bætt kjör.
  • Miðflokkurinn vill að ráðist verði þegar í stað í löngu tímabærar endurbætur á málefnum eldri borgara.

Stefnumið

Leggja þarf áherslu á heildstæða stefnu í málefnum aldraðra sem tekur tillit til mismunandi aldursskeiða, mismunandi aðstæðna, fjárhagslegra og heilsufarslegra.

Koma þarf í veg fyrir að atvinnutekjur rýri lífeyristekjur. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það hefur áhuga á og heilsu til. Lykilatriði í lífi allra er félagsleg virkni og hreyfing, það á einnig við um þá sem eldri eru.

Mismunur á lífeyrisréttindum þeirra sem eru í „opinbera kerfinu“ og þeirra sem greitt hafa í hið ,,almenna“ er sláandi.  Niðurstöður nefndar sem skilaði af sér árið 2016 hnigu í þá átt að jafna þennan mun með því að skilgreina bætur Tryggingastofnunar sem öryggisnet þeirra sem njóta ekki neinna greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Vitað er að góð heilsa er forsenda fyrir virkni aldraðra á vinnumarkaði og í samfélaginu, því er mikilvægt að vinna gegn aldursmismunun í atvinnulífinu.

Aðgerðir:

  • Einfalda þarf hið félagslega kerfi svo það nýtist sem best öllum þeim sem á þurfa að halda.
  • Áhersla skal vera á að sérstök lagaumgjörð verði um málefni aldraðra.
  • Ráðast þarf í uppstokkun Tryggingastofnunar.
  • Samhæfa þarf vinnubrögð allra þeirra sem sinna öldruðum, ríkisvalds, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Þannig sé tryggt að þjónustukeðjan rofni ekki heldur fylgi þörfum hvers og eins ævina út.
  • Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um leið og tryggt er að önnur búseta sé í boði.

Útfærslur:

  • Auka þarf heimaþjónustu aldraðra og tvinna hana saman við önnur virkniúrræði, mikilvægt er hverjum og einum að eiga heimili í tryggu umhverfi óháð því hvort um er að ræða búsetu í eigin húsnæði og/eða leiguhúsnæði til hjúkrunarheimila.
  • Koma þarf í veg fyrir hvers konar einangrun með tryggri sálgæslu og að ávallt séu úrræði til staðar sem taka mið að aðstæðum aldraðra á hverju aldursbili.
  • Þjónustukeðjan verði skilgreind og gagnsæ og gengið verði út frá því að þeir sem starfa vilja fram yfir sjötugt fái tækifæri til þess.
  • Eftir starfslok verði unnið með virkni, lífsleikni, félagslegar athafnir, forvarnir, heilsuvernd og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
  • Heimaþjónusta verði stórefld og fleiri og fjölbreyttari búsetuúrræði verði í boði.
  • Millistig milli einkaheimilis og hjúkrunarheimilis verði endurskilgreind og í boði eftir þörfum.
  • Stóruppbyggingu þarf á því sviði hjúkrunarheimila.
  • Það þarf nýja heildarlöggjöf um málefni aldraðra og uppstokkun Tryggingastofnunar.
  • Skerðingar og afar óréttlát skattheimta verði afnumin ásamt því að aðskilja beri alveg málefni eldri borgara og öryrkja í orði og æði enda alls óskyldir hópar.
  • Auka þarf möguleika á sí- og endurmenntun í samræmi við þá hugsun að menntun sé ævilangt verkefni.