Fjármál og efnahagsmál

  • Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum.
  • Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín.
  • Miðflokkurinn geldur varhug við svokölluðum „grænum sköttum“ sem bitna á fólki og fyrirtækjum og draga úr framtaki og framförum.

Stefnumið:

Miðflokkurinn leggur áherslu á að ríkissjóður sé rekinn án halla og því hafnar flokkurinn hugmyndum um þjóðarsjóð á meðan skuldir ríkissjóðs eru eins háar og nú er. Vænkist hagur ríkissjóðs þá verði sá ávinningur fyrst nýttur til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, sem hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum, áður en stofnun sérstakra varasjóða verður skoðuð. Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs, eins og hann er reiknaður í dag, skal endurmetinn og ekki nýttur til verðtryggingar á húsnæðisskuldbindingum íslenskra heimila.

Stefnt skal að því að lækka skatta en skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD-ríkja þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp.

Aðgerðir:

  • Endurskoðun skattkerfisins með það fyrir augum að einfalda það er nauðsynleg og mun það ná fram heilbrigðara jafnvægi hvað útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga varðar.
  • Sérstök áhersla á að lækka jaðarskatta, sem eru vinnuletjandi og ósanngjarnir séu þeir háir.
  • Áfram verði heimilt að nýta séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán.

Útfærslur:

  • Lækka skal tryggingagjald. Tryggingagjald fyrir tíu fyrstu starfsmenn skal lækka sérstaklega. Með því er komið til móts við minni og fámennari fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaði.
  • Lækka skal erfðafjárskatt, verði hann ekki afnuminn með öllu. Skatturinn er ósanngjörn tvísköttun.
  • Álagning fasteignaskatta þarf að endurskoða. Núverandi fyrirkomulag er tilviljunarkennt og mætir ekki sjónarmiðum um að horft sé til þess að verið sé að greiða raunverð fyrir þjónustu.