Fjármál og efnahagsmál
Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum og skort á raunverulegum aðhaldsaðgerðum.
Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín. Rjúfa þarf þann gamalkunna vítahring sem fitnar eins og púkinn á kirkjubitanum á kostnað heimila og fyrirtækja.
Miðflokkurinn hafnar svokölluðum „grænum sköttum“ enda standi Ísland þjóða fremst í loftslagsmálum. Ávinningur skattanna sé óljós, bitni á fólki og fyrirtækjum og dragi úr framtaki og framförum.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að ríkissjóður sé rekinn án halla og því hafnar flokkurinn hugmyndum um þjóðarsjóð á meðan skuldir ríkissjóðs eru eins háar og nú er. Vænkist hagur ríkissjóðs þá verði sá ávinningur fyrst nýttur til niðurgreiðslu skulda sem hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum áður en stofnun sérstakra varasjóða verður skoðuð.
Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs verði endurmetinn.
Stefnt skal að því að lækka skatta en skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD-ríkja þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp. Skattpíning íslenskra heimila og fyrirtækja er komin út yfir öll mörk. Endurskoðun og einföldun skattkerfisins er nauðsynleg og mun það ná fram heilbrigðara jafnvægi á útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga. M.a. þarf að skoða hvort réttlátt sé að sveitarfélög fái hluta af fjármagnstekjuskatti einstaklinga. Afnám samsköttunar hjóna mun leiða til aukinnar skattbyrði íslenskra heimila. Sérstök áhersla á að lækka jaðarskatta, sem eru vinnu letjandi og ósanngjarnir séu þeir háir. Áfram verði heimilt að nýta séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán. Lækka skal tryggingargjald og leita leiða til þess að koma til móts við lítil og millistór fyrirtæki.
Afnema skal erfðafjárskatt. Skatturinn er ósanngjörn tvísköttun.
Auka skal gagnsæi í útgjöldum ríkissjóðs og veita almenningi greiðan aðgang að upplýsingum um ráðstöfun skattfjár.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að móta framsækna og heildstæða rafmyntarstefnu enda sé ljóst að mikill fjöldi Íslendinga ráðstafi fjármunum sínum í rafmynt, s.s. Bitcoin. Því er brýnt að flokkurinn móti sér heildstæða stefnu með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.