Sauðfé hefur verið eyrnamarkað á Íslandi allar götur frá landnámi. Mörgum kom því á óvart þegar landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp, skömmu fyrir sauðburð í vor, þar sem lagt var til að horfið yrði frá þeirri hefð sem hér hefur verið fylgt að bændur eyrnamerktu fé sitt. Í ljós kom að tillagan var unnin án þess að bændur eða sauðfjáreigendur hafi sérstaklega óskað eftir því og án alls samráðs við markaverði, sem hafa eftirlit með mörkun sauðfjár.
Á vettvangi atvinnuveganefndar Alþingis, sem fékk málið til frekari meðferðar, kom í berlega í ljós að fjölmargt mælti gegn því að þessi skylda yrði aflögð. Sérstaklega má þar nefna varnaðarorð dr. Ólafs R. Dýrmundssonar landsmarkavarðar og Sigurðar Sigurðssonar dýralæknis, sem báðir skiluðu inn ítarlegum umsögnum sem aðgengilegar eru á vef Alþingis. Frumvarp ráðherra var ekki reist á dýravelferð, sem snertir særingu á eyrum og sársauka, enda hefur verið unnið af kappi að útrýmingu soramarka undanfarna áratugi.
Þessir sérfræðingar töldu misráðið að fella niður eyrnamörkun, jafnvel aðeins að hluta, þar sem með því yrði dregið úr öryggi merkingakerfis sauðfjár sem sé með því öruggasta í heimi. Þetta væri varasamt nú og enn frekar en áður þyrfti að styrkja og efla allar varnaraðgerðir og rekjanleika í ljósi þess að margar sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið aflagðar eða viðhald þeirra vanrækt. Merkingakerfi sauðfjár hér á landi byggist á eyrnamörkun alls fjár, plötumerkingu með litum eftir svæðum og brennimerkingu á sumu fé. Þá kom einnig fram að störf markanefnda kosta ríkissjóð ekki krónu.
Þrátt fyrir varnaðarorð og ráðleggingar fjölmargra var innflutningur á hráu og ófrosnu kjöti leyfður frá síðustu áramótum. Þetta leiðir til aukinnar hættu á að hingað til lands berist búfjársjúkdómar með óafturkræfum afleiðingum fyrir heilbrigði íslenskra búfjárstofna sem hafa vegna einangrunar engar varnir gegn landlægum búfjárpestum í Evrópu. Sumir þessara sjúkdóma geti borist í fólk svo hér eru lýðheilsusjónarmið að veði. Bent hefur verið á að eftirlitskerfið hér innanlands sé veikt og um of sé treyst á innflutningsfyrirtækin sjálf. Mótvægisaðgerðir íslenskra stjórnvalda séu ótryggar og ófullnægjandi og endurspegli veika stöðu landbúnaðarins í stjórnarráðinu.
Barátta gegn smitsjúkdómum í búfé hefur markað mjög sögu landbúnaðar. Á liðinni öld var ráðist í öflugar aðgerðir til að útrýma þeim sjúkdómum sem hingað höfðu borist, þar á meðal riðu- og garnaveiki. Öll slökun á vörnum felur í sér hættu á að þessir sjúkdómar og fleiri, sem hingað kunna að berast, breiðist um landið og valdi óbætanlegu tjóni. Íslenskir búfjárstofnar hafa verið einangraðir um langan aldur og lausir við marga þá sjúkdóma sem öldum saman hafa hrjáð búfé Evrópuþjóða og eru þar af leiðandi sérlega viðkvæmir fyrir nýjum smitsjúkdómum. Þeir Ólafur Dýrmundsson og Sigurður Sigurðsson töldu að hinn góða árangur Íslendinga í baráttu gegn smitsjúkdómum í búfé, mætti að miklu leyti þakka merkingarkerfi sauðfjár.
Gildandi merkingakerfi byggist á að tryggja rekjanleika, en með því að taka einungis upp plastmerki minnkar hann til muna því þau vilja tapast og þá er einnig auðvelt að skipta þeim út og koma nýju merki fyrir. Ef eyrnamörkuninni er sleppt minnkar rekjanleikinn sem öllu skiptir í ljósi þess að hann gegnir lykilhlutverki við að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma.
Eyrnamörkun er þekkt í nágrannalöndum okkar, t.d. í Færeyjum og Noregi og einnig á svæðum í norðanverðri Evrópu og stríðir ekki gegn löggjöf Evrópusambandsins. Afstaða þingmanna Miðflokksins til tillögu ráðherra um að hverfa frá mörkun búfjár var skýr frá upphafi. Fulltrúar flokksins í atvinnuveganefnd Alþingis, Sigurður Páll Jónsson og Ólafur Ísleifsson, fylgdu þeirri stefnu eftir í nefndinni með áherslu á sóttvarnir í ljósi ábendinga Ólafs Dýrmundssonar og Sigurðar Sigurðssonar. Eins og fram kemur í nefndaráliti var það niðurstaða meirihluta nefndarinnar eftir ítarlega umfjöllun að ekki kæmi til greina að hverfa frá mörkun sauðfjár. Var af hálfu nefndarinnar mælt fyrir því að tillagan næði ekki fram að ganga. Þannig tókst að hrinda tillögu sem sýndist hafa verið borin fram án tilefnis og án samráðs og sem hefði ekki verið fallin til að styrkja sóttvarnir íslenskra búfjárstofna eða efla lýðheilsu landsmanna.
Höfundar: Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Miðflokksins
Greinin birtist í Bændablaðinu þann 22. október, 2020