Páskarnir veita ágætt svigrúm frá amstri dagsins til að gera hið ýmsa; sumir taka til í bílskúrnum, aðrir hugsa sinn gang, einhverjir sinna fjölskyldunni eða trúarlífinu og svo eru þeir sem gera upp við sig hvort þeir ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.
Síðustu vikur hafa nefnilega verið undarlegar í stjórnmálum á Íslandi. Allt er á bið – bið eftir því hvort forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar ætlar í forsetaframboð og yfirgefa pólitík.
Ríkisstjórnarflokkarnir halda þétt á sínum spilum og sýna á þau sem hentar, svona ef þeir skyldu lenda í kosningum eftir nokkra daga. Framsókn eyðir peningum sem hún á ekki og Sjálfstæðisflokkurinn neitar að birta fjármálaáætlun enda það ágæta plagg væntanlega ekki að fara að gera mikið fyrir baklandið ef kosningar eru á næsta leiti.
En hvað svo?
Ef forsætisráðherrann yfirgefur ríkisstjórnina yfir páskana þá standa flokkarnir frammi fyrir því að halda áfram eða slíta samstarfinu og mynda nýja ríkisstjórn eða boða til kosninga.
Hvorki Sjálfstæðisflokkur né VG eru á þeim stað gagnvart kjósendum að vilja fara í kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn ætti þó alltaf að vera reiðubúinn í kosningar með sína vel þekktu „kosningavél“ á kantinum en annað má segja um VG. Framsókn bíður átekta.
Ef Katrín gefur hins vegar ekki kost á sér til embættis forseta Íslands, þá verður gaman að sjá hvað VG-liðar fá í staðinn fyrir að halda oddvitanum sínum, líminu í ríkisstjórninni, í forsætisráðherrastólnum. Verður fyrirgreiðslan á sviði útlendingamála eða hvað – eitthvað þarf VG til að rétta sinn hlut í könnunum?
Erindi ríkisstjórnarinnar verður enn jafn týnt og áður, þó þau hafi reynt að finna það á Þingvöllum á dögunum, með bjór í dós. Erindisleysan er algjör, þjóðinni til óheilla.
Ekki liggur til dæmis enn fyrir hvernig þetta ágæta fólk hyggst leysa atvinnulífið úr viðjum orkuleysis. Ekki liggur fyrir hvernig tempra á viðstöðulaust flæði flóttamanna til Íslands, ekki liggur fyrir hvernig leysa á húsnæðisvanda þjóðarinnar og ekki liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma böndum á verðbólgu og háa vexti.
Þau mál sem ríkisstjórnin var sammála um að tækla eru komin í farveg eða leyst.
Er þá ekki ástæða til að leyfa þjóðinni að velja sterka pólitíska forystu í landinu – svo það fari eitthvað að gerast hérna og kyrrstöðunni ljúki?
Í öllu falli er farsi fram undan, hvort sem forsætisráðherrann hverfur af vettvangi eða ekki. Farsi sem sjálfur rithöfundurinn Katrín Jakobsdóttir gæti ekki skáldað í næsta reyfara.
Sjálfur ætla ég að koma skikki á geymsluna þegar færi gefst um páskana og bíð spenntur eftir því hvort enn bætist í sístækkandi hóp forsetaframbjóðenda – lengi er von á einum.
Gleðilega páska!
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is