Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, var gestur í Silfri Ríkisútvarpsins síðastliðinn mánudag.
Þar ákvað hún að höggva í Miðflokkinn fyrir að hafa ekki greitt máli hennar um niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands atkvæði sitt vorið 2021. Þingmenn Miðflokksins höfðu þá lýst miklum áhyggjum af afdrifum byggingarannsókna í tengslum við áform ráðherrans. Gamla „Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins“ var undir hatti Nýsköpunarmiðstöðvar þegar þarna var komið við sögu.
Áhyggjur okkar í þingflokki Miðflokksins lutu sem fyrr segir að byggingarannsóknum, sérstaklega með tilliti til myglu og taldi þingflokkurinn að ekki væri nægjanlega vel tryggt að það sem tæki við að stofnuninni aflagðri yrði til gagns í þeim efnum. Verkfræðingafélagið og fleiri deildu þessum áhyggjum okkar.
Því miður blasir við í dag að ekki hefur tekist vel til og á lokametrum ríkisstjórnarinnar heitinnar var upplýst að áform væru uppi um breytta nálgun.
Eðlilega, enda tala bæði sérfræðingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og formaður Verkfræðingafélagsins um mikilvægi þess að endurvekja byggingarannsóknir á Íslandi.
Í Silfrinu sagði ráðherrann:
„Við erum með 164 stofnanir í þessu landi, mér finnst það einfaldlega galið. Að samfélag sem telur ekki 400 þúsund manns sé með 164 stofnanir.
Ég hef lagt niður stofnun, Miðflokkurinn var ekki einu sinni sammála því þegar við gerðum það, þau studdu það ekki einu sinni.
Þessi einföldunarmál sem ég hef komið með inn á þingið hefur Miðflokkurinn ekki stutt, ekkert þeirra.“
Mér leið í eitt augnablik eins og þegar ritari Sjálfstæðisflokksins skammaði mig í viðtali á Bylgjunni fyrir að hafa lagst gegn sameiningarmálum umhverfisráðherra á liðnu vori, en þá hafði ég nýlokið við að samþykkja málin í atkvæðagreiðslu. Ég gagnrýndi að vísu skort á fjárhagslegu aðhaldi í frumvörpunum, en það er annað mál.
Saga síðustu sjö ára liggur fyrir, hún er ekki að öllu leyti fögur fyrir stjórnarflokkana þrjá.
Þegar málaskrá núverandi utanríkisráðherra er skoðuð frá upphafi ráðherratíðar hennar er fátt um fína drætti hvað einföldunarmál varðar, en batnandi „ráðherrum“ er best að lifa og vonandi lagast hlutfall íþyngjandi regluverks og þess sem raunverulega er til einföldunar verði varaformaður Sjálfstæðisflokksins ráðherra á næsta kjörtímabili.
Það þarf að leggja til atlögu við íþyngjandi regluverk sem grafið hefur um sig í öllum kimum samfélagsins og liggur þar eins og mara á verðmætasköpun. Til þess verks mætti notast við argentíska vélsög ef önnur verkfæri duga ekki.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is