Loftkennd jarðtenging

Loftkennd jarðtenging

Þriðjudagur, 23. júlí 2024
 

Teit­ur Ein­ars­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, skrifaði grein hér á dög­un­um þar sem hann steyt­ir hnef­ann gagn­vart lofts­lags­stefnu eig­in flokks og eig­in rík­is­stjórn­ar. Hann gæti hafa gleymt, eða alls ekki, að það er ráðherra hans eig­in flokks, Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, sem stýr­ir um­hverf­is- og lofts­lags­mál­un­um og sit­ur sveitt­ur við að demba hverri óraun­hæfu lofts­lags­kvöðinni á fæt­ur ann­arri á lands­menn, þannig að menn set­ur hljóða.

Teit­ur Ein­ars­son ætti kannski að hóa í sinn mann á næsta þing­flokks­fundi og koma þess­ari skoðun sinni til skila, eða horf­ast í augu við það að hann ver rík­is­stjórn falli á hverj­um degi sem neit­ar að horf­ast í augu við veru­leik­ann í lofts­lags­mál­um. Neit­ar að viður­kenna full­komna sér­stöðu Íslands í þess­um mál­um, gríðarleg­an ár­ang­ur á fyrri stig­um og magn grænn­ar orku hér á landi.

Kannski ætti Teit­ur Ein­ars­son að hverfa frá því að reyna að finna söku­dólga sem sitja ekki í rík­is­stjórn. Kannski ætti hann að gleðjast yfir því að hann hafi löng­um átt sam­verka­menn á Alþingi hvað það varðar að horfa raun­hæft á um­hverf­is­mál­in – þing­flokk Miðflokks­ins sem hef­ur haldið því viðstöðulaust til haga að Íslandi sé best borgið til framtíðar með auk­inni virkj­un grænn­ar orku og eigi ekk­ert skylt við lé­lega stöðu um­hverf­is­mála inn­an ESB og beri því að nálg­ast þessi mál á eig­in for­send­um.

Samþykkt Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar á Par­ís­ar­mark­miðunum í tíð rík­is­stjórn­ar hans var ein­mitt það – mark­mið, án út­færslu, um að tak­marka hækk­un hita­stigs jarðar­inn­ar o.fl. Það er svo Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sem út­fær­ir mark­miðin með vin­um sín­um í Vinstri græn­um síðustu sjö ár og það er þá sem menn keyra kyrfi­lega út í skurð. Fjöldi þjóða sem und­ir­rituðu óút­færðu mark­miðin í Par­ís forðum hef­ur ein­mitt hafnað því að hneppa þjóð sína í fjár­hags­leg­an sjálfsskaða eins og Ísland hef­ur gert.

Það er fagnaðarefni að Teit­ur Ein­ars­son sé nú fyrst að vakna til lífs­ins varðandi þess­ari feigðarför þegar kem­ur að út­færslu mark­miða ESB í lofts­lags­mál­um. Við mun­um styðja öll góð mál í þess­um efn­um og von­um að Teiti Ein­ars­syni auðnist að koma vit­inu fyr­ir fé­laga sína í Sjálf­stæðis­flokkn­um hratt og ör­ugg­lega.

Að end­ingu, vil ég hvetja þá sem þetta lesa til að hlusta á sérþátt af hinu geysi­vin­sæla hlaðvarpi þing­flokks Miðflokks­ins Sjón­varps­laus­ir fimmtu­dag­ar sem er birt­ur verður 1. ág­úst nk. á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um. Þar verður farið skipu­lega í gegn­um um­hverf­is­mál­in, 150 atriða aðgerðaáætl­un um­hverf­is­ráðherra í lofts­lags­mál­um, stöðu þeirra og stefnu til framtíðar – ásamt því hvar af­glöp­in liggja í meðferð þeirra mála hjá rík­is­stjórn­inni í dag. Stay tuned, eins og þeir segja!