Einföldun ráðherra

Einföldun ráðherra

Föstudagur, 25. október 2024
 

Vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, var gest­ur í Silfri Rík­is­út­varps­ins síðastliðinn mánu­dag.

Þar ákvað hún að höggva í Miðflokk­inn fyr­ir að hafa ekki greitt máli henn­ar um niður­lagn­ingu Ný­sköp­un­ar­miðstöðvar Íslands at­kvæði sitt vorið 2021. Þing­menn Miðflokks­ins höfðu þá lýst mikl­um áhyggj­um af af­drif­um bygg­ing­a­rann­sókna í tengsl­um við áform ráðherr­ans. Gamla „Rann­sókn­ar­stofn­un bygg­ing­ariðnaðar­ins“ var und­ir hatti Ný­sköp­un­ar­miðstöðvar þegar þarna var komið við sögu.

Áhyggj­ur okk­ar í þing­flokki Miðflokks­ins lutu sem fyrr seg­ir að bygg­ing­a­rann­sókn­um, sér­stak­lega með til­liti til myglu og taldi þing­flokk­ur­inn að ekki væri nægj­an­lega vel tryggt að það sem tæki við að stofn­un­inni aflagðri yrði til gagns í þeim efn­um. Verk­fræðinga­fé­lagið og fleiri deildu þess­um áhyggj­um okk­ar.

Því miður blas­ir við í dag að ekki hef­ur tek­ist vel til og á loka­metr­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar heit­inn­ar var upp­lýst að áform væru uppi um breytta nálg­un.

Eðli­lega, enda tala bæði sér­fræðing­ar Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar og formaður Verk­fræðinga­fé­lags­ins um mik­il­vægi þess að end­ur­vekja bygg­ing­a­rann­sókn­ir á Íslandi.

Í Silfr­inu sagði ráðherr­ann:

„Við erum með 164 stofn­an­ir í þessu landi, mér finnst það ein­fald­lega galið. Að sam­fé­lag sem tel­ur ekki 400 þúsund manns sé með 164 stofn­an­ir.

Ég hef lagt niður stofn­un, Miðflokk­ur­inn var ekki einu sinni sam­mála því þegar við gerðum það, þau studdu það ekki einu sinni.

Þessi ein­föld­un­ar­mál sem ég hef komið með inn á þingið hef­ur Miðflokk­ur­inn ekki stutt, ekk­ert þeirra.“

Mér leið í eitt augna­blik eins og þegar rit­ari Sjálf­stæðis­flokks­ins skammaði mig í viðtali á Bylgj­unni fyr­ir að hafa lagst gegn sam­ein­ing­ar­mál­um um­hverf­is­ráðherra á liðnu vori, en þá hafði ég ný­lokið við að samþykkja mál­in í at­kvæðagreiðslu. Ég gagn­rýndi að vísu skort á fjár­hags­legu aðhaldi í frum­vörp­un­um, en það er annað mál.

Saga síðustu sjö ára ligg­ur fyr­ir, hún er ekki að öllu leyti fög­ur fyr­ir stjórn­ar­flokk­ana þrjá.

Þegar mála­skrá nú­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra er skoðuð frá upp­hafi ráðherratíðar henn­ar er fátt um fína drætti hvað ein­föld­un­ar­mál varðar, en batn­andi „ráðherr­um“ er best að lifa og von­andi lag­ast hlut­fall íþyngj­andi reglu­verks og þess sem raun­veru­lega er til ein­föld­un­ar verði vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins ráðherra á næsta kjör­tíma­bili.

Það þarf að leggja til at­lögu við íþyngj­andi reglu­verk sem grafið hef­ur um sig í öll­um kim­um sam­fé­lags­ins og ligg­ur þar eins og mara á verðmæta­sköp­un. Til þess verks mætti not­ast við arg­entíska vél­sög ef önn­ur verk­færi duga ekki.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is