Í flestum borgum eru hverfin sér rekstrareiningar og síðan er yfirstjórn yfir borginni í heild.  Þjónusta og vald er því í hverfunum sjálfum og boðleiðirnar þannig fremur stuttar.  Öllu heldur þá eru þrjú sveitarstjórnarstig í flestum löndum nema á Íslandi þó ákveðinn vísir sé af því með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. En við erum enn að finna upp hjól sem er löngu fundið upp og aðrir nota með góðum árangri. 

Íbúar eiga að hafa heilmikið að segja um sitt nærumhverfi.  Þeir eiga að ráða málum um hvernig hverfin sín þróast.  Í öðrum sveitarfélögum á landinu sem eru smærri en Reykjavík eru boðleiðir stuttar. Íbúar ráða meiru um sitt nærumhverfi og eru að kjósa sér fólk sem það þekkir eitthvað til þegar kemur að stjórnun sveitarfélagsins.  Hittir sveitarstjórnarfulltrúa í búðinni og getur tekið spjallið og skoðanaskipti.   Reykjavík er hins vegar orðin það stór að boðleiðir eru orðnar allt of langar og ópersónulegar.  Borgarstjóri ásamt flestum borgarfulltrúum búa vestast í borginni og hafa litla hugmynd um hvað er að gerast austast eða hvað fólk þar almennt vill og þó þeir viti það þá er oftast ekki farið eftir því.  Kerfið er einhvernvegin orðið einráða og borgarbúar hafa litla sem enga aðkomu að ákvarðanatöku eins og í smærri sveitarfélögum.  Það er engin furða þótt íbúar úr Reykjavík sæki í smærri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Flest sveitarfélögin í kringum Reykjavík eru mun smærri einingar, stuttar boðleiðir, þjónusta og vald í nærumhverfi og miklu betri rekstur.  Á sama tíma er borgin nánast gjaldþrota ef ekki væri nema fyrir bókhaldsbrellur!

Svo er það lýðræðishallinn í borginni sem blasir við þegar hverfin austan Reykjanesbrautar eiga engan borgarfulltrúa.  Minni sveitarfélög en Grafarvogur og Breiðholt eiga 7-11 bæjarfulltrúa.  Breiðholt, Árbær- og Ártúnsholt, Norðlingaholt, Grafarholt, Grafarvogur og Kjalarnes eiga engan borgarfulltrúa!  Það er móðgun við okkur sem búum austast í borginni að halda að það sé nóg að koma við hjá okkur á síðasta ári fyrir kosningar og spyrja hvað við viljum með því að stilla sér upp í bakaríinu eða búðinni á laugardögum!  Mín skoðun er einfaldlega sú að nú sé komið nóg!  Nú sé komið að kaflaskiptum þegar litið er til borgarmálanna almennt.  Það er kominn tími til að skipta borginni upp í rekstrareiningar og færa lýðræðið með fjármagni og þjónustu út til hverfanna sjálfra.  Þannig koma íbúar sjálfir betur að ákvörðunum í sínu nánasta umhverfi sem og verkefnum sem þar er staðið að.  Nú þegar eru svokölluð hverfisráð í hverfunum en þeim fylgir hvorki vald né fjármagn fyrir utan að þar eru einstaklingar jafnvel skipaðir pólitískt og búa jafnvel ekki í hverfunum sjálfum!  Margir vita ekki einu sinni af þessum hverfisráðum eða hverjir eru þar á ferð.

Það er kominn tími til að fólk í hverfunum kjósi sér hverfisstjórn og hverfisstjóra nú eða framkvæmdastjóra til að vinna að málum í hverfinu sjálfu.  Endurverkja Vinnuskólann og þá í hverfunum sjálfum.  Viðhald, umhirða, götusópun og snjómokstur sé í höndum hverfanna sjálfra. Skólastarf og tómstundir séu í hverfunum sjálfum og byggt upp þar.   Einföld stutt boðleið þegar þarf að gera eitthvað en ekki fara í biðröð niður við Bríetartún.  Helsta þjónusta við alla aldurshópa sé í hverfunum sjálfum eða í samvinnu við nærliggjandi hverfi. 

Um þetta ættu næstu borgarstjórnarkosningar að snúast!

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu þann 27.7.2017 og á ennþá fullt erindi.