Nú lítur út fyrir að engin breyting verði á fyrirhugaðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut þrátt fyrir að bent hafi verið á ítrekað að allar forsendur fyrir staðarvali séu brostnar. Nú nýverið kynnti formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar nýja byggð sem mun rísa á svokölluðum Kringlureit, byggð sem kallar á aukna umferð.

Frá árunum 2001-2008 voru skrifaðar fimm sérfræðingaskýrslur sem allar nema ein gáfu þá niðurstöðu að reisa ætti nýjan spítala á besta stað frá grunni. Ekki ætti að halda áfram bútasaumnum við Hringbraut. Samhliða þessum skýrslum voru á teikniborðinu ýmis umferðarúrræði, nú í dag er ekkert þessara úrræða til umfjöllunar. Samt á að halda áfram með bygginguna við Hringbraut.

Skipulagsmál snúast um umgjörð fyrir samfélagið. Staðsetning sjúkrahússins snýst því ekki aðeins um skipulag og byggingar, sjúkrahús snúast um tilfinningar, líf og dauða, gleði og sorg og þess vegna er mikilvægt að vandað verði til verka. Allir þurfa á lífsleiðinni að leggjast inn á sjúkrahús eða tengjast einhverjum sem gera það og í löndunum í kringum okkur virðist fólk búið að átta sig á þeirri staðreynd. Í Danmörku eru nú verið að reisa nokkur sjúkrahús, nefna má Álaborg og Odense og eiga þessar framkvæmdir það sameiginlegt að sjúkrahúsunum er ætlað rými sem kemur öllum til góðs, andlega og líkamlega. Sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk lítur framkvæmdirnar jákvæðum augum. Reist eru ný sjúkrahús frá grunni, ekki er hugsað um að troða þeim niður á lítinn blett í miðborg, þau eru byggð þar sem nálægð er við náttúru og útivistasvæði.

Það er algerlega ómögulegt að skilja af hverju ekki er farið í að endurskoða staðarval fyrir þjóðarsjúkrahúsið, svo virðist sem alger þöggun ríki um málið. Stjórnsýslan virðist ætla að koma mesta skipulagsslysi í gegn þvert á vilja landsmanna og það eina sem hægt er að hugsa sér sem ástæðu er að búið er að ganga svo langt í vitleysunni að það eina í stöðunni sé að halda henni áfram. Á meðan ekki er tekin skynsamleg ákvörðun verður áfram erfitt að manna stöður innan Landspítala, starfsfólk mun áfram verða óvinnufært sökum myglu, umferðarþunginn við spítalann mun aukast. Hávaðinn frá byggingarbútasaumnum verður áfram ærandi og svo mætti lengi telja. Það má vel vera rétt að staðsetning Landspítala hafi einhvern tímann verið í útjaðri byggðar, en síðan eru liðin mörg ár og tími kominn til að velja besta stað fyrir þjóðarsjúkrahús allra landsmanna.