Stjórnmálaályktun Miðflokksins samþykkt á vetrarfundi Miðflokksins þann 30. mars, 2019 að Garðaholti í Garðabæ.

Miðflokkurinn er víðsýnn og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur. Flokkurinn starfar á miðju íslenskra stjórnmála í þágu lands og þjóðar. Flokkurinn leggur áherslu á festu og ábyrgð og vill að málum sé farsællega ráðið til lykta á grundvelli rökrænnar umræðu þar sem ólík sjónarmið vegast á.

Miðflokkurinn stendur vörð um fullveldi, sjálfstæði og auðlindir þjóðarinnar. Flokkurinn vill treysta forræði þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og mun leggjast gegn samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Flokkurinn samþykkir hvorki afsal á fullveldi Íslendinga yfir orkuauðlindinni né fyrirsjáanlega hækkun á raforkuverði hér á landi.

Miðflokkurinn vill þróttmikið atvinnulíf í landinu og vill treysta skilyrði íslenskra atvinnufyrirtækja í samkeppni við erlenda keppinauta. Miðflokkurinn telur brýnt að stjórnvöld greiði eftir föngum fyrir kjarasamningum. Miðflokkurinn hafnar því að atvinnufyrirtækin búi við lakari skattakjör og hærri fjármagnskostnað en gerist í nágrannalöndunum. Miðflokkurinn leggur áherslu á lækkun tryggingagjalds sem stendur fyrirtækjum fyrir þrifum þegar kemur að fjölgun starfsfólks, hækkun launa og fjárfestingum í þágu aukinnar framleiðni.

Miðflokkurinn lítur á matvælaframleiðslu íslensks landbúnaðar sem mikilvæga framtíðaratvinnugrein sem verja ber og tryggja vænlegt rekstrarumhverfi. Fjölbreyttur og öflugur landbúnaður er nauðsynlegur fæðuöryggi þjóðarinnar og hornsteinn byggðar í landinu. Horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum. Endurskoða þarf tollasamninga við Evrópusambandið með það að markmiði að tryggja stöðu innlendrar framleiðslu sem oft keppir við niðurgreidda vöru sem er framleidd við óviðunandi skilyrði. Herða þarf upprunamerkingar og rekjanleika matvæla.

Miðflokkurinn vill treysta undirstöður sjávarútvegs svo hann eflist enn frekar en orðið er eftir að hafa náð framúrskarandi árangri við að auka framleiðni í greininni.

Ferðaþjónusta hefur borið uppi hagvöxt undanfarin ár sem ein mikilvægasta atvinnugrein landsmanna og er uppspretta tekna og gjaldeyris í þjóðarbúið. Sjálfbær ferðaþjónusta kallar á að virt séu þolmörk ferðamannastaða og að umgengni á viðkvæmum stöðum spilli ekki þeirri auðlind sem felst í íslenskri náttúru.

Ríkisstjórnin hefur enga tilburði sýnt til að koma til móts við heimilin með því að létta af þeim oki verðtryggingar og ofurvaxta. Ríkisstjórnin hefur ekki reynst fáanleg til að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni enda þótt gögn runnin frá stjórnvöldum staðfesti að hann ráðist að fjárhag fjölskyldna eins og gráðugt skrímsli. Miðflokkurinn vill afnema verðtryggingu hér á landi. Meðan þingmeirihluti er ekki fyrir slíkri aðgerð vill flokkurinn sækja að verðtryggingunni og þrengja möguleika á að hún verði áfram eyðingarafl þegar kemur að hag heimila og fjölskyldna. Framlengja skal ákvæði um nýtingu séreignarsparnaðar til íbúðarkaupa. Miðflokkurinn vill stokka upp fjármálakerfið og taka upp fyrirkomulag við fjármögnun íbúðalána eins og gerist og gengur í nágrannalöndunum. Miðflokkurinn hafnar þeirri fyrirætlan Landsbankans að reisa nýjar höfuðstöðvar af þeirri stærð sem raun ber vitni í stað þess að draga úr yfirbyggingu og lækka kostnað í þágu viðskiptavina bankans.

Íslenska þjóðin eldist eins og á við um nágrannaþjóðirnar. Fjölgun aldraðra á komandi árum liggur fyrir í lýðfræðilegum gögnum og spám. Við því er mikilvægt að bregðast með tímanlegum og réttum hætti. Miðflokkurinn vill að eldri borgarar hafi tök á að lifa mannsæmandi lífi. Ríkisstjórnin hefur daufheyrst við kröfum um að bætur almannatrygginga fylgi launaþróun. Hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna í 100 þúsund krónur gengur of skammt. Miðflokkurinn vill að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur enda liggja fyrir útreikningar sem ekki hafa verið bornar brigður á að slík aðgerð kosti ríkissjóð ekki svo mikið sem eina krónu. Miðflokkurinn telur einnig brýnt að hækka frítekjumark vegna fjármagnstekna og að fast verði tekið á skerðingum bóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum sem grafið hefur undan tiltrú á lífeyriskerfinu og skilur aldrað láglaunafólk eftir jafnsett og fólk sem ekkert hefur greitt í lífeyrissjóð á starfsaldri. Miðflokkurinn vill að öldruðum sé gert kleift að búa á heimilum sínum en að úrræði séu fyrir hendi þegar slíks er ekki lengur kostur. Miðflokkurinn vill gangast fyrir átaki til að reisa dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem mæti þeirri þörf sem fyrir hendi er á hverjum tíma. Aldraðir sem skilað hafa ævistarfi sínu eiga skilið að búa við góð kjör og öryggi.

Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar.