Það er merkilegt að lesa að landlæknir veltir því fyrir sér, í umsögn sinni um staðarval fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, hvort þingmönnum Miðflokksins sé alvara með þingsályktunartillögu um staðarval fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús en í tillögunni er m.a. lagt til að heilbrigðisráðherra leiti ráðgjafar hjá erlendum aðilum sem og innlendum fagaðilum, með tilliti til fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála.

Stutta svarið við spurningu landlæknis er að okkur er full alvara.

Þingflokkur Miðflokksins hefur bent á að ef nýr spítali er byggður frá grunni tekur það skemmri tíma en ef haldið er áfram við Hringbraut og það má segja að nú þegar séu teikn á lofti sem gefa til kynna að boðuð tímaáætlun vegna bygginga við Hringbraut muni ekki standast. Benda má á sjúkra- og sjúklingahótelið við Hringbraut er nú þegar ári á eftir áætlun, það stendur nú óeinangrað og óklætt og bygging sem hýsa á jáeindaskanna hefur tafist, en taka átti skannann í gagnið í september 2016. Það má líka benda á að Hringbraut verður byggingastaður mörg næstu ár með tilheyrandi sprengingum og hávaða frá vinnuvélum. Svo þarf að hreinsa burt myglu- og rakaskemmdir, fara í gegnum lagnakerfi húsanna, skipta um gólf og glugga. Á meðan á þessu stendur verða sjúklingar fluttir hægri vinstri eftir því sem pláss er fyrir þá á byggingarsvæðinu. Bílastæðavandinn kemur svo sem bónus ofan á allt hitt.

Það að ráðast í faglega staðarvalsgreiningu er því bæði skynsamlegt og rökrétt.

Rektor HÍ segir í umsögn sinni að viðbótarkostnaður skólans verði um 10 milljarðar ef ályktun Miðflokksins um staðarvalsgreiningu gengur eftir. Þetta eru furðulegar forsendur, hvernig getur það kostað HÍ 10 milljarða að ráðast í staðarvalsgreininguna, nema að rektor HÍ gefi sér að staðarvalsgreiningin gefi aðra staðsetningu, sem túlka má þá bæði skynsamlega og rökrétta. En er það eitthvað lögmál að háskólanám í heilbrigðisgreinum verði að fara fram við Suðurgötu og Hringbraut? Er eitthvað sem mælir sérstaklega á móti því að fara þá leið sem farin er í Osló og á fleiri borgum þar sem heilbrigðishluti Oslóarháskóla er einfaldlega staðsettur við hlið spítalans?

Upphrópanir um kostnað og tímalengdir sem fleygt er fram án rökstuðnings eru ekki fagleg greining á úrlausnarefninu, jafnvel þótt upphrópendur beri merkilega titla.

Miðflokkurinn leitar lausna um hvernig hægt er að gera hlutina best – hvað er skynsamlegast að gera. Skynsamlegast er að byrja á faglegri og óháðri staðarvalsgreiningu án fyrir fram gefinnar niðurstöðu. Við höfnum kerfishugsun sem snýst fyrst og fremst um að verja fyrri ákvarðanir, sama hversu forsendur kunna að hafa breyst. Það er kominn tími til að fara skynsamar leiðir.

Þingflokkur Miðflokksins