Okkur hefur verið talin trú um ýmislegt hér á Íslandi þegar kemur að háu vaxtastigi og verðtryggingu á neytendalánum/húsnæðislánum sem flest heimili eru að sligast undan og margir ná ekki í gegnum greiðslumat vegna þessa.  Meðal annars það að landið þurfi að ganga í ESB og þá verði allt gott eða að nauðsynlegt sé að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil og það leysi allan vanda.

En það lagast ekkert ef vandinn er ennþá heimafyrir og kerfið er ennþá það sama.  Bankarnir með alltof mikið eigið fé sem þeir þurfa að ávaxta með háum vöxtum og þjónustugjöldum.  Peningamálastefna Seðlabankans er sú sama nú og fyrir hrun, lítið hefur breyst á þeim bæ.  Fyrir síðasta hrun var bankakerfið orðið risastór bastarður í litlu hagkerfi og það vissu flestir og reynt var að fá einn bankann til þess að fara út úr hagkerfinu en það gekk ekki eftir eins og allir muna vel.  Hingað streymdi inn fé vegna vaxtamunarins sem síðar við þekkjum sem snjóhengjuna og ráðuneyti Sigmundar Davíðs tók á.  Eftir hrun var bankakerfið þó minnkað eitthvað, en ekki svo að það er ennþá stærð í íslensku hagkerfi og regluverki hefur lítið sem ekkert breyst.  En núna er mögulega eina tækifærið til að breyta þessu að renna okkur úr greipum með því að verið er að selja Arionbanka.  Til þess að alvöru breytingar geti átt sér stað á bankakerfinu verða þeir að vera í eigu ríkisins.  Þess vegna leggur Miðflokkurinn áherslu á það að byrja á að nýta forkaupsrétt ríkisins á þeim banka.

Bankakerfið eins og það er nú, er ekki í þjónustu við okkur heldur má segja að við séum í þjónustu við það.  Á meðan bankakerfið er svona stórt erum við þessi litla þjóð dæmd til þess að vera í hávaxtaumhverfi og óstöðugu gjaldmiðilsumhverfi.  Á meðan peningamálastefna Seðlabankans er sú sama, breytist ekkert.  Síðan ofan á þetta allt saman erum við með gríðarlega stóra lífeyrissjóði miðað við annars lítið hagkerfi sem vilja ekki fara að heiman.  Ávöxtunarkrafa þeirra er 3.5% og þeirri ávöxtun ná þeir með því að kaupa og selja fyrirtæki fram og til baka og hækka verðið í hvert skipti.  Í dag eiga lífeyrissjóðir alls kyns fyrirtæki allt frá bensínstöðvum, verslanakeðjum, fjölmiðlum o.s.frv og síðan eru þessi fyrirtæki öll í samkeppni við sjálfan sig.  Það þætti einkennilegt ef norski olíusjóðurinn ávaxtaði sitt fé eingöngu í Noregi og hrærðist þar í sama polli og héldi hagkerfinu í heljargreipum.  Það er að sjálfsögðu ekki heilbrigt.  Lífeyrissjóðirnar þurfa að fara út í hinn stóra heim og taka þátt í nýsköpun, verðmætasköpum og skila enn meiri ávöxtun en þessum 3.5%.

Miðflokkurinn ætlar því að byrja strax á því að nýta forkaupsrétt að Arion, minnka bankakerfið um að lágmarki 130 milljarða og nýta það fé í innviði. Um leið og það minnkar þarf ekki að ávaxta þetta mikla eiginfé og vextir geta lækkað.  En við viljum ganga enn lengra og klára verkið. Landsbankinn verður netbanki í ríkiseigu og leiðir vaxtastigið í landinu.  Arionbanki verður afhentur landsmönnum að 1/3 á tímabilinu 1.des 2018 – 1.des 2019.   Annar jafnstór hluti verður seldur í opnu útboði og 1/3 hluti verður áfram í eigu ríkisins á meðan verið er að sjá hvernig til hefur tekist.  Íslandsbanki verður síðan seldur öflugum erlendum viðskiptabanka þannig að hér komist á eðlileg samkeppni á fjármálamarkaði.  Allar þessar aðgerðir eru liður í því að lækka vexti og fá hér stöðugt umhverfi fyrir gjaldmiðilinn.  Það ríður á að fara skjótt í aðgerðir því nú eru vaxtamunaviðskipti að blómstra enn á ný og það verður að koma í veg fyrir, að það sama gerist og fyrir síðasta hrun!

Margir munu hrópa að þetta sé ekki hægt.  Gamall söngur!  En þetta er allt hægt að framkvæma rétt eins og skuldaleiðréttinguna sem var gríðarlega stór aðgerð sem afþýddi annars botnfrosið hagkerfi.  En allt þetta er ekki hægt að framkvæma nema Miðflokkurinn fái nægilegan stuðning í næstu kosningum.  Við stöndum á tímamótum núna!

 

Höfundur:  Vilborg G Hansen skipar 5.sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík norður