Miðflokkurinn býður nú fram í fyrsta sinn, undir tryggri forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er sá stjórnmálaforingi nú um stundir sem hefur sýnt það best að hafa hæfileika og festu til að takast á við stór og flókin úrlausnarefni og ná árangri.

Vextirnir

Megináhersla Miðflokksins fyrir komandi kosningar er endurskipulagning fjármálakerfisins.  Markmiðið er að skipuleggja fjármálakerfi landsins þannig að það þjóni almenningi og fyrirtækjum sem best. Megináherslan með þeirri heildstæðu áætlun sem flokkurinn hefur kynnt er að ná niður vaxtastigi í landinu. Hagsmunirnir eru gríðarlegir. Fyrir fjölskyldu sem skuldar 25 milljónir, samsvarar 2% vaxtalækkun því að vaxtakostnaður heimilisins lækki um 500 þúsund á ári – hálfa milljón! – og það er í eftirskattapeningum. Áhrifin á fyriræki eru þau sömu.

Ísland allt – byggðamálin

Ísland allt – byggðastefna Miðflokksins hefur það að markmiði að láta landið allt vinna sem eina heild. Eins og íbúar landsbyggðarinnar þekkja þá hefur þjónusta sogast til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum og kjörtímabilum. Það þarf að tryggja sem jafnast aðgengi íbúa landsins að þeirri þjónustu sem hið opinbera býður upp á. Hluti af „Ísland allt“ áætluninni er uppbygging sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og styrking heilsugæslunnar.

Vegirnir

Kostnaður við að nota vegakerfið er of hár. Í dag er skattlagning á umferð og ökutæki umtalsvert meiri en þeir fjármunir sem varið er til vegagerðar og viðhalds vegakerfisins.  Áður en vegtollar koma til skoðunar þarf að tryggja að þeir fjármunir sem þegar eru teknir af vegfarendum skili sér til uppbyggingar vegakerfisins. Þar er af nógu að taka. Þó að stórframkvæmdirnar séu mest áberandi, þá er nauðsynlegt að ráðast í átak á safn- og tengivegum til sveita. Ein hugmynd, sem Miðflokkurinn vill láta skoða alvarlega er að leggja bundið slitlag á fáfarna vegi, í núverandi veglínu, með lækkuðum hámarkshraða.

Nám framtíðarinnar

Miðflokkurinn leggur áherslu á að stuðningur við iðn- og verknám á framhaldsskólastigi verði aukinn og að á háskólastiginu verði áherslan á tækni- og raungreinar aukin verulega.  Við verðum að aðlaga öll skólastigin að þeirri framtíð sem við okkur blasir.

Að endingu; landbúnaðurinn, tryggingagjaldið og ferðaþjónustan

Íslenskum landbúnaði er ætlað mikilvægt hlutverk þegar kemur að matvælaöryggi, atvinnulífi í dreifbýli og nýtingu auðlinda landsins. Landbúnaðurinn er samofinn atvinnulífi á landsbyggðinni og bændur, gæslumenn landsins, bera ríka ábyrgð þegar kemur að því að halda landinu okkar í rækt, til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Miðflokkurinn ætlar að ganga hratt til þess verks að leysa bráðavanda sauðfjárbænda, það er nauðsynlegt til að hægt sé að finna lausnir til framtíðar.

Eitt af megináhersluatriðum Miðflokksins er að lækka tryggingagjald á fyrirtæki. Gjaldið er enn hartnær 30% hærra en það var árið 2007, þrátt fyrir að raunverulegt atvinnuleysi sé hér um bil ekkert. Sérstök áhersla verður á fyrstu 10 starfsmenn fyrirtækja enda er launakostnaður iðulega hátt hlutfall rekstarkostnaðar smærri fyrirtækja.

Miðflokkurinn hafnar hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna.

Bergþór Ólason
Oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Maríanna Eva Ragnarsdóttir
4. sæti á lista Miðflokksins