Miðflokkurinn lagði í dag fram breytingatillögur við tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar í þremur liðum:

Í fyrsta lagi leggur Miðflokkurinn til að tryggingagjald lækki um 0,5% 1. janúar 2018, en eðli máls samkvæmt mun lækkunin nýtast best litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Augljóst svigrúm er til lækkunar tryggingagjalds nú, bæði vegna þverrandi atvinnuleysis og góðrar stöðu ríkissjóðs. Því leggur Miðflokkurinn til að gjaldið sé nú lækkað til samræmis við áður gefin loforð ríkisins í tengslum við kjarasamninga 2016.

Í öðru lagi leggur Miðflokkurinn til að virðisaukaskattur á bækur verði afnuminn strax og þannig staðið við skýrt loforð sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið.

Í þriðja lagi leggur Miðflokkurinn til að virðisaukaskattur á áskriftargjöld fjölmiðla verði afnuminn, en tillagan er skref í að jafna stöðu fjölmiðla á samkeppnismarkaði.

Breytingatillögurnar má sjá hér og á vef Alþingis:

Breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.

 1. Á undan 45. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
  Í stað „5,40%“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: 4,90%.
  2.      Í stað „38.–46. gr.“ í 8. mgr. 48. gr. komi: 38.–47. gr.

Greinargerð.

Lagt er til að almennt tryggingagjald lækki um hálft prósentustig 1. janúar 2018 til samræmis við samkomulag um lækkun tryggingagjalds sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í janúar 2016.

http://www.althingi.is/altext/148/s/0112.html

 

Breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.

 1. Á undan 42. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
  a.      (42. gr.)
  Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  16.      Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, þ.m.t. nótnabóka með og án texta, sem og hljóðupptökur af lestri bóka. Sama gildir um sölu á geisladiskum og öðrum sambærilegum miðlum með bókartexta, sem og sölu á rafrænum útgáfum bóka.
  17.      Áskrift að prent-, ljósvaka- og netmiðlum.
  b.      (43. gr.)
  6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.
  2.      Í stað „38.–46. gr.“ í 8. mgr. 48. gr. kemur: 38.–48. gr.

http://www.althingi.is/altext/148/s/0114.html