Nýtt kröftugt stjórnmálaafl hefur verið stofnað, Miðflokkurinn.  Miðflokkurinn er stofnaður af fólki
víða að úr samfélaginu, sem vill vinna að heill landsins alls og leggur mikla áherslu á að hagsmunir
okkar allra fari saman. Flokkurinn hefur nú þegar á örfáum dögum frá stofnun sett fram áherslur
sínar í stærstu og veigamestu málum sem varða alla íslendinga. Stefnumálin eru róttæk og við
ætlum að koma þeim til framkvæmda með því að vinna að réttu lausninni – skynsamlegustu
lausninni – rökréttustu lausninni, sama hvaðan hugmyndirnar koma.

Endurskipulagning fjármálakerfisins

Miðflokkurinn ætlar að afnema verðtrygginguna og lækka vexti í landinu. Með því að fylgja eftir
ákveðinni aðgerðaráætlun í endurskipulagningu fjármálakerfisins verður verðtryggingin svelt í burtu
af íslenskum fjármálamarkaði. Fyrst þá verður verðtrygging af neytendalánum gerð óheimil með
lagabreytingu. Í öðru lagi þá mun ríkið nýta sér forkaupsrétt að Arion banka. Í þriðja lagi verða
bankarnir minnkaðir með því að greiða úr þeim það eigið fé sem er umfram í bönkunum til ríkisins.
Eftir yfirtökuna á Arion og endurskipulagningu bankanna þá verði Landsbankinn enn í ríkiseigu en
komi til með að stofna netbanka sem mun bjóða lægstu mögulegu vexti. Arion banka verður skipt í
þrennt þar sem allir íslendingar munu eignast hlutabréf í bankanum endurgjaldslaust sem nemur
einum þriðja af öllu hlutafé. Þriðjungur verður seldur í opnu útboði og Ríkið heldur áfram ráðandi
hlut í bankanum fyrst um sinn. Ný lög verða sett um Seðlabankann og lífeyrissjóðunum verði gert
skylt að fjárfesta erlendis líkt og norski olíusjóðurinn gerir. Með ofangreindum aðgerðum og fleirum
verður búið til lágvaxtaumhverfi, sem mun bæta lífskjör á Íslandi.

Landið allt

Við viljum auka skilning landsmanna á því að hagsmunir allra fari saman.  Þetta á við til dæmis í
sambandi við nýtingu fjárfestinga í heilbrigðisþjónustu, þar sem bæði er hægt að nýta þá aðstöðu
sem þegar er til og um leið að færa þjónustuna nær fólkinu. Við viljum tryggja flugvöll áfram í
Vatnsmýrinni og með því tryggja góð tengsl milli höfuðborgar og landsbyggðar.
Nýtum kosningaréttinn

Ágæti kjósandi. Frambjóðendur eru boðnir og búnir að koma til skrafs og ráðagerða. Einnig er
hægt að senda fyrirspurnir á sudur@midflokkurinn.is. Mikilvægt er að allir nýti sinn kosningarétt
því það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn á Íslandi.

Birgir  skipar 1. sætið á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2017

Categories: Kosningar2017