Undanfarið og lengi hefur nokkuð verið rætt um framgang byggingarverkefna við Hringbraut, þar sem ríksstjórnarflokkarnir vilja að byggt verði þjóðarsjúkrahús sem sagt er uppfylla nútímakröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu. Ég leyfi mér stórlega að efast um það og fjölmargar fréttir og greinar hafa verið skrifaðar sem styðja þá skoðun.

Húsin eru mörg svo mygluð að óvíst er að hægt verði að gera við þau. Á árunum 2016-2017 var t.d. u.þ.b. 200 milljónum króna varið til viðgerða á myglu á deild 33C, sem tilheyrir geðsviði Landsspítalans. Nú einu ári síðar og tæplega þó er aftur farið að leka! Nefna má þungaflutninga vinnuvéla í gegnum þröngar götur Reykjavíkur sem eru óboðlegir, næg er umferðin nú þegar. Mikið veikir sjúklingar hafa þurft að þola hávaða og hristing og læknar hafa jafnvel þurft að fresta aðgerðum vegna sprenginga í grunni sjúkrahótelsins. Svo illa tókst til við þá byggingu að húsið var byrjað að skemmast áður en klæðingin var sett á.

Þetta er einungis nokkur dæmi um ástandið á Landsspítala Íslands við Hringbraut. Fyrirsagnir um málið segja sína sögu: Húsin draga úr heilsu starfsfólks! Milljarðakróna mygluskemmdir! Skelfilegar afleiðingar af klambri við Hringbraut! Hvernig eiga höfuðborgarbúar að komast með hraði á spítalann?

Og hvað á að gera við alla sjúklingana á meðan verið er að gera við? Stór hluti þjóðarinnar er löngu hættur að skilja hvers vegna menn berja höfðinu við steininn og halda sig við ákvörðun sem er röng. Auðvitað á að bæta og laga við Hringbrautina þau hús sem eru ekki ónýt, en svo eigum við að hugsa lengra og byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stað þar sem bæði starfsfólki og sjúklingum líður vel og aðgengi er gott. Slíkt þjóðarsjúkrahús yrði byggt með fullkomnustu tækni, hefði nægt rými og yrði búið fyrsta flokks tækjum. Þetta er sú framtíðarsýn sem ég held að flestir sjái fyrir sér að er skynsamleg.

Anna Kolbrún Árnadóttir og þingmenn Miðflokksins hafa sett fram tillögu til þingsályktunar um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Margir telja að niðurstaða slíkrar úttektar muni sýna að bútasaumurinn við Hringbaut er óhagkvæmari og dýrari framkvæmd en ef nýtt þjóðarsjúkrarhús yrði byggt á nýjum stað.  Augljóslega má sjá hve slíkt yrði heilbrigðara bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Ég hvet kjósendur til að merkja X við M vegna þess að Miðflokkurinn mun fylgja þessu máli eftir.

Una María Óskarsdóttir varaþingmaður Suðvesturkjördæmis er uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur. Hún skipar 4. sæti framboðslista Miðflokksins í Kópavogi og var verkefnisstjóri ráðherranefndar um lýðheilsu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

 

 

 

Categories: Kosningar2017