Það er sorglegt að í eins ríku samfélagi og Íslandi geta margir eldri borgarar hvorki unnið án skerðinga, notið lífsins, né borið höfuð hátt þegar kemur að eigin fjármálum. Þessi mál hafa verið mér hugleikin um langt skeið. Þetta er sem betur fer brýnt verkefni sem Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á og vill gera upp við eldri borgara eins og alltaf stóð til, en eftir að ráðuneyti Sigmundar Davíðs fór frá var það ekki gert.

Lífeyrir tryggi lágmarkslaun og atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur

Flokkurinn ætlar að láta lífeyri tryggja lágmarkslaun og lágmarkslífeyrir fylgi lágmarkslaunum. Þannig eiga atvinnutekjur ekki að skerða lífeyrisgreiðslur og lífeyrir á að vera 300.000 kr. Lágmarkstekjur aldraðra sem og öryrkja eiga að fylgja lágmarkslaunum á vinnumarkaði og persónuafsláttur á að sjálfsögðu að fylgja verðlagsþróun. Minnka þarf allar skerðingar og ýta þeim loks alveg út eins og þekkist t.d. í Noregi. Atvinnutekjur eiga alls ekki að skerða lífeyrisgreiðslur og starfslok eiga að vera sveigjanleg enda er starfsgeta fólks mismunandi þegar komið er á efri ár. Eldri borgarar, hvort sem þeir geta eða vilja vinna, eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og notið lífsíns hvort sem heldur þeir kjósa að vinna eða hætta því. Það er líka stórt lýðheilsusjónarmið að fólk geti unnið áfram, verið virkt í samfélaginu og er það beinn sparnaður þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Þegar verið er að ákveða hvernig kerfi byggjast upp eins og þessi þá þarf að líta til bæði kostnaðar og ávinnings, því ávinningurinn er oft mun meiri vítt og breytt en kostnaðurinn sem stendur útreiknaður á exelskjali.

Fólk á þannig að geta haldið áfram að vinna ef það kýs svo og greiðir þá eðlilegan tekjuskatt til ríkisins og eykur verðmætasköpun með sinni dýrmætu þekkingu. Flokkurinn vill gera verulegt átak í að fjölga þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara og hjúkrunarheimilum með tengingu við heilsugæslu og styrkja heimahjúkrun svo fólk geti verið lengur heima hjá sér. Einnig stendur til að fella niður virðisaukaskatt á lyfseðilskyldum lyfjum sem aftur sparar eldri borgurum og sjúklingum pening, ásamt því sem það dregur úr útgjöldum sjúkrahúsa og ekki er vanþörf á.

Til þess að þetta verði að veruleika þurfum við stuðning þinn þann 28.okt n.k.
Setjum X við M

Höfundur: Vilborg G Hansen, skipar 5.sæti í Reykjavík norður á lista Miðflokksins.

Categories: Kosningar2017