Tryggingagjald er gjald sem leggst þungt á smærri fyrirtæki og einyrkja (þá sem starfa sem verktakar). Eftir nýlega lækkun er gjaldið 6,85% en það var 7,35%. Þetta gjald var hækkað verulega eftir hrun vegna mikils atvinuleysis, sem var skiljanlegt á þeim tíma. Nú eru hins vegar allt aðrar aðstæður, hér er lítið atvinnuleysi og engin þörf á þessu háa tryggingagjaldi. En það virðist hafa verið frekar regla en undantekning á Íslandi að ef stjórnmálamenn hækka skatta tímabundið er eins og þeir geti bara ekki lækkað þá aftur. Þeir nota hvert tækifæri til að humma lækkunina fram af sér og alltaf er fundin ný ástæða.

Heilu stéttirnar í okkar samfélagi starfa sem verktakar eða í verktöku fyrir aðra og greiða þetta gjald um hver mánaðarmót af launum sínum. Miðflokkurinn ætlar að lækka tryggingagjaldið í námunda við það sem það var árið 2007 en þá var það 5,34% og þótti alveg nógu hátt á þeim tíma. Flokkurinn ætlar síðan að lækka þetta gjald enn meira á einyrkja og smærri fyrirtæki, þ.e. þau sem hafa einn til tíu starfsmenn. Um þetta mun verulega muna þegar kemur að launatengdum gjöldum sem fyrirtæki þurfa að greiða vegna hvers starfsmanns. Há launatengd gjöld eru meðal annars ástæða þess hve margar stéttir starfa sem verktakar við störf sín og hafa því ekki það öryggi sem fylgir fastráðningu og því að vera launamenn.

Það er með þetta mál eins og önnur sem flokkurinn vill breyta til muna, að það mun ekki gerast nema hann fái stuðning til þess í kosningum 28. október næstkomandi.

Vilborg skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður fyrir alþingiskosningarnar 2017.

Categories: Kosningar2017