Þriðjungur frambjóðenda Miðflokksins til borgarstjórnar í Reykjavík kemur úr Austurborginni

Frambjóðendur í tólf efstu sætum Miðflokksins í Reykjavík koma að 1/3 hluta úr efri byggðum eða úr Austurborginni.  Átta frambjóðendur í þessum hópi eru úr efri byggðum þ.e. tveir úr Grafarholti og Úlfarsárdal, einn úr Grafarvogi en fimm úr Breiðholtinu.  Þrír efstu frambjóðendur flokksins hafa tengsl við Grafarholtið og önnur hvefi eins og Breiðholt og Grafarvog, en borgarstjóraefnið Vigdís Hauksdóttir bjó í tæp 7 ár í Grafarholti áður en hún fluttist í Hlíðarnar.  Í 2. sæti er Vilborg G. Hansen sem ólst upp í Breiðholti en er nú búsett í Grafarholti með viðkomu í Árbæ og Grafarvogi. Í  3.sæti er Baldur Borgþórsson sem bjó í Breiðholtinu sín unglingsár og síðar fjölmörg ár Grafarvogi en er nú búsettur í Úlfarsárdal. Einn frambjóðandi kemur úr miðbæ Reykjavíkur, einn úr Vesturbænum og tveir úr Hliðunum.

Mikið hefur verið kvartað yfir lýðræðishallanum í borginni á undanförnum misserum og skortur á borgarfulltrúum úr efri byggðum hefur verið nánast algjör. Framboð Miðflokksins er skipað öflugum einstaklingum alls staðar að úr borginni og munu hverfin utan miðborgarinnar því hljóta mjög öfluga málsvara með góðri kosningu Miðflokksins í borgarstjórnarkosningunum þann 26.mai.

Í 1. sæti og borgarstjóraefni Miðflokksins er Vigdís Hauksdóttir lögfræðingur og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar Alþingis, bjó tæplega 7 ár í Grafarholti en býr nú í Hlíðunum.

 

 


Í 2. sæti á lista Miðflokksins er Vilborg G. Hansen, landfræðingur, fasteignasali og dpl. Í opinberri stjórnsýslu, en hún ólst upp í efra Breiðholti frá fimm ára aldri allt þar til til háskólagangan tók við.  Hún hefur sterkar taugar til sinna gömlu uppeldisstöðva þótt hún hafi síðar búið bæði í Árbæ og Grafarvogi um stutt skeið. Vilborg unir nú hag sínum vel í Grafarholts- og Úlfarsárdal.

 


Í 3. sæti á lista Miðflokksins er Baldur Borgþórsson, einkaþjálfari. Fyrstu 12 árin ólst Baldur upp í hinni víðfrægu bæjarblokk við Skúlagötu en síðan í bæjarblokkinni í Fellahverfinu í Breiðholti. Nokkur ár bjó hann í Vogahverfinu en fluttist svo í Grafarvoginn þar sem hann bjó í ein 13 ár, þar til hann og fjölskyldan byggðu hús í  Úlfarsárdalnum þar sem þau hafa búið síðan.

 


Í 4. sæti á lista Miðflokksins er Sveinn Hjörtur Guðfinnsson markþjálfi en hann er Breiðhyltingur og ólst upp í Stekkjunum frá árinu 1979. Hann gekk í Breiðholtsskóla og eitt af leiksvæðunum var Elliðárdalurinn. Ásamt því að vera fulltrúi í Hverfaráði Breiðholts er Sveinn Hjörtur í Heimaleikjaráði handknattleiksdeildar ÍR, í stjórn Foreldrafélags Hólabrekkuskóla og í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Sveinn Hjörtur hefur látið sig betra Breiðholt varða með ýmsum hætti og var m.a. tilnefndur nú á dögunum sem ein af hverfishetjum Breiðholts fyrir vinnu sína þegar kemur að hverfarölti og samvinnu foreldra og íbúa í hverfinu. Hann á þrjú börn sem ganga í grunnskóla í Breiðholti. Sveinn Hjörtur er þekktur fyrir léttleika og mikinn metnað þegar kemur að hverfinu hans.


Í 5. sæti á lista Miðflokksins er Jón Hjaltalín Magnússon verkfræðingur og forstjóri eigin tæknifyrirtækis. Jón var formaður Handknattleikssambands Íslands 1984-92 og er núverandi formaður Samtaka íslenskra ólympíufara. Jón ólst upp í Bústaðarhverfinu en hefur búið með eiginkonu sinni í Seljahverfinu síðan 1982 eftir áratuga búsetu í Sviþjóð. Helstu áhugmál Jóns í komandi kosningum eru íþrótta- og skólamál auk málefna eldri borgara, eins og húsnæði og heilsugæsla.

 


Í 6. sæti á lista Miðflokksins er Sólveig Bjarney Daníelsdóttir hjúkrunarfræðingur, dpl í hjúkrunarstjórnun og master í mannauðsstjórnun. Sólveig ólst upp í Hlíðahverfinu frá 8 ára aldri og býr þar enn. Sólveig starfar á bráðageðdeild og bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans en þar hefur hún starfað nánast samfleytt á öldrunar-, skurð- og geðsviðinu síðustu 22 árin.

 


Í 7. sæti á lista Miðflokksins er Trausti Harðarson en hann hefur bakgrunn í verk- og tæknimenntun en er einnig með meistaragráðu í viðskiptafræðum. Trausti býr í Grafarvogi ásamt unnustu sinni og þremur börnum og er dyggur liðsmaður og stuðningsmaður hverfisíþróttafélagsins Fjölnis. Þar hefur hann komið að uppbyggingarstarfi knattspyrnudeildar auk þess að hafa unnið sérstaklega að því að styðja við fjölgun íþróttaiðkenda. Trausti hefur verið fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar frá 2014 og barist fyrir fjölda íþróttamannvirkja í borginni með góðum árangri.

 


Í 8. sæti á lista Miðflokksins er Viðar Freyr Guðmundsson rafeindavirki og rafvirki. Viðar Freyr er einnig hljóðtæknimeistari frá School of Audio Engineering í London, stundar nú meistaranám í tveimur iðngreinum og vinnur við að þjónusta aðgangsstýrikerfi. Hann ólst upp á Akureyri, í Vesturbænum í Reykjavík og á Sauðárkróki á víxl. Viðar býr nú við Hofsvallagötu í Vesturbænum.

 


Í 9. sæti á lista Miðflokksins er Kristín Jóna Grétarsdóttir framkvæmdastjóri en hún er fædd og uppalin í Reykjavík. Kristín fluttist fimm ára í Seljahverfið í Breiðholti og hefur búið þar síðan. Hún vill hvergi annars staðar vera og telur það forréttindi að hafa alist þar upp og hafa alið börnin sín þrjú þar upp líka. Kristín telur að Seljahverfið sé eitt best geymda leyndarmál Reykjavíkur.  Hún er menntaður hárgreiðslumeistari og hefur unnið við það s.l. 26 ár. Kristín hefur sinnt ýmsum félagsstörfum og þá sérstaklega þeim sem tengjast fötluðum og langveikum, en hún er fyrrv. formaður Einstakra barna, stuðningsfélags barna með sjaldgæfa alvarlega sjúkdóma.

 


Í 10. sæti á lista Miðflokksins er Örn Bergmann Jónsson bóksali í Reykjavík en hann bjó á Seyðisfirði fram að fermingu. Eftir það fluttist hann til Reykjavíkur og gekk í Austurbæjarskóla og Iðnskólann í Reykjavík. Hann bjó lengi á Laugaveginum og hefur stundað verslun og viðskipti frá unga aldri. Örn tók seint bílpróf og vill helst vera gangandi, á hjóli eða í strætó. Hann hefur brennandi áhuga fyrir bættum samgöngum í Reykjavík. Örn býr í póstnúmeri 101 í miðbæ Reykjavíkur.

 


Í 11. sæti á lista Miðflokksins er Linda Jónsdóttir einkaþjálfari en hún ólst upp til 12 ára aldurs í Nóatúninu í Reykjavík en bjó öll unglingsárin í neðra Breiðholti.  Linda bjó síðan fjölmörg ár í Grafarvoginum en undanfarin ár hefur hún búið í Úlfarsárdalnum í húsi sem fjölskyldan byggði þar.

 

 


Í 12. sæti á lista Miðflokksin er Steinunn Anna Baldvinsdóttir en hún er með B.A. í guðfræði og tómstunda- og félagsmálafræði og starfar sem kirkjuvörður og æskulýðsfulltrúi í Seljakirkju. Hún býr í Seljahverfi í Breiðholti og hefur búið þar alla tíð.