Skýr stefna Miðflokksins er að skila flokknum fylgisaukningunni nú

Skýr stefna Miðflokksins er að skila flokknum fylgisaukningunni nú

Hólmgeir Karlsson skrifar  21. október 2024
 

Engum þeirra sem í dag ganga til liðs við Miðflokkinn dylst fyrir hvað flokkurinn stendur, því flokkurinn hefur skýra og vel unna stefnu í öllum málaflokkum. Stefnu sem flokkurinn hefur talað fyrir og staðið við gegnum súrt og sætt frá því flokkurinn var stofnaður. Flokkurinn eflist því en breytist ekki við þann mikla liðsauka sem honum er að berast nú í aðdragand kosninga. Fólk er að ganga til liðs við Miðflokkinn nú því fólk vill sjá meiri skynsemi koma inn í stjórnmálin og vegna þess að fólki líkar stefna flokksins og málflutningur.

Þannig er það styrkur fyrir flokkinn þegar reynslumikið fólk eins og t.d. Sigríður Á. Andersen velur að ganga til liðs við flokkinn. Af orðum hennar kemur strax skýrt fram að hún gerir það þar sem henni fellur málflutningur flokksins í veigamiklum málaflokkum, en ekki vegna þess að hún ætli sér að breyta flokknum. Hún sér einfaldlega tækifæri þarna til að vinna að þeim málum sem eiga hug hennar.

Miðflokkurinn er með skýra stefnu í öllum grunn málaflokkum sem varða samfélagið. Þannig hefur flokkurinn alla tíð verið mjög skýr varðandi það að öll grunn þjónusta við borgarana sé vel uppbyggð og eins fyrir alla og að allir hafi tækifæri til að mennta sig og eignast húsnæði. Á sama tíma hefur flokkurinn lagt áherslu á mikilvægi þess að draga úr ríkisbákninu og ná tökum á ríkisfjármálunum um leið og hlúð sé að eðlilegu og hvetjandi rekstrarumhverfi fyrir atvinnuvegina sem tryggir best verðmætasköpunina í samfélaginu. Það skapar síðan ríkinu tekjur til að standa undir rekstri á grunn þjónustunni. Þetta er ekkert flókið, það þarf bara að framkvæma það.

Miðflokkurinn er skýr í afstöðu sinni varðandi sjálfstæði okkar og hefur þannig sem dæmi lagst gegn innleiðingu á orkustefnu ESB sem er í raun ekkert annað en hægfara innleiðing á einkavæðingu á nýtingu auðlindarinnar sem leiðir af sér stórhækkun á verði raforku bæði til heimila og fyrirtækja eins og glöggt má sjá af þróuninni þar sem stefnan hefur verið innleidd eins og t.d. í Noregi.

Miðflokkurinn er skýr í afstöðu sinni til bókunar 35 sem er í raun ógn við sjálfsákvörðunarrétt okkar sem þjóðar þar sem hún getur leitt til þess að reglur settar á grundvelli EES samnings gangi framar reglum sem við sjálf setjum stangist þær á.

Miðflokkurinn er skýr í afstöðu sinni til hælisleitendamála þar sem við þurfum að hafa hemil á útgjöldum sem eru algjörlega komin úr böndum og innviðir samfélagsins heldur ekki færir um að taka við slíkum fjölda. Því þarf að ná tökum á landamærunum strax og taka síðan í framhaldinu þátt í móttöku hælisleitenda í takt við getu okkar sem samfélags líkt of helstu nágrannaþjóðir okkar gera.

Miðflokkurinn er skýr í afstöðu sinni til mikilvægis þess að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þannig leggur flokkurinn ríka áherslu á innlenda landbúnaðar- og matvælaframleiðslu. Til að tryggja það þarf m.a. að auka á tollvernd, endurskoða og efla stuðningskerfi greinarinnar sem nær einnig til þess mikilvæga þáttar að halda landinu öllu í byggð. Koma þarf einnig á nýju hagstæðu lánakerfi til kaupa á bújörðum þannig að nýliðun í greininni geti átt sér stað. Í dag er nær ógjörningur fyrir ungt fólk að hefja búskap eins og málum er háttað og það því mikil ógn við framtíð atvinnugreinarinnar. Er í raun ekkert ólíkt þeim ósköpum sem látin eru viðgangast á húsnæðismarkaði og gerir ungu fólki nær ómögulegt að eignast sitt fyrsta húsnæði.

Það er því bara gaman að fylgjast með umræðunni þessa dagana þar sem margir vilja meina að flokkurinn færist til hægri með nýjum liðsauka eða eins og sumir fjölmiðlar sem lengst ganga reyna að stimpla flokkinn sem einhvern öfga flokk. Heyrst hafa líka mildari orð eins og heilbrigður hægri flokkur sem er svolítið skondið en kannski ekki neitt slæmt heldur.

Miðflokkurinn er eins og nafnið bendir til á miðju stjórnmálanna á þeim gamla ás frá vinstri til hægri. Sú skilgreining á stjórnmálum nútímans er þó kannski frekar takmarkandi sérstaklega þar sem eitthvað sem tilheyrði vinstri, miðju eða hægri fyrir einhverjum áratugum er ekki endilega eins í dag, hvorki sömu málin eða áherslurnar því samfélagið hefur breyst mikið og þarfir fólks og væntingar aðrar á mörgum sviðum.

Þannig gerir það Miðflokkinn heldur ekki að hægriflokk þó svo Sjálfstæðisflokkurinn hafi lent vinstra megin við Miðflokkinn í afgreiðslu margra mála á síðustu árum í stjórnarsamstarfinu með Framsókn og Vinstri grænum.

Hólmgeir Karlsson er miðflokksmaður og áhugamaður um samfélagsmál