Sem eiginmaður til 10 ára hef ég neyðst til að horfa á ýmiss konar raunveruleikasjónvarp. Flestir raunveruleikaþættir eiga það sameiginlegt að fólk virðist geta grátið og rifist yfir öllu. Flestar seríur enda með svokölluðum „tell all“-þætti, þar mætast að leikslokum allir þátttakendur og fara yfir óuppgerð atvik, þar er sérstaklega grátið og rifist.
Síðastliðið mánudagskvöld virtist RÚV gera sína tilraun að „tell all“-þætti þegar það bauð öllum flokksleiðtogum í ríkisstjórninni að hittast í beinni útsendingu og gera upp stjórnarslitin, rúmum 24 klukkustundum eftir að ríkisstjórnin sprakk. Orð fá því ekki lýst hversu súr stemningin var í settinu. Þetta var alveg eins og í The Bachelor þegar piparsveinninn þarf að svara fyrir ákvarðanir sínar og svo er rifist. Í Silfrinu var Bjarni Ben. piparsveinninn og hann hafði hvorki gefið Svandísi né Sigurði Inga rós.
Þátturinn byrjaði á því að þau þrjú rifust yfir því hvað hefði raunverulega gerst undanfarna sólarhringa og deildu um raunverulega rót sambandsslitanna, þetta þróaðist svo út í að Svandís Svavarsdóttir og Sigurður Ingi lögðu til einhvers konar blöndu af starfsstjórn og minnihlutastjórn þar sem þau tvö gætu krýnt Sigurð Inga forsætisráðherra í sex vikur. Þarna var nýtt samband að myndast í beinni og sagði Svandís að hún væri endanlega hætt með Bjarna; hún myndi aldrei sitja undir hans stjórn aftur.
Hafi fólk ekki séð þessa snilld þá hvet ég alla til þess að horfa á þennan þátt af Silfrinu, þetta var sögulegur þáttur og gaf mikla innsýn í það af hverju það virðist allt vera á öðrum endanum á Íslandi.
Þetta „tell all“ hjá RÚV opnaði vonandi augu margra kjósenda fyrir mikilvægi breytinga í íslenskum stjórnmálum. Við þurfum alvöruleiðtoga sem þora að taka erfiðar ákvarðanir, jafnvel þótt þær séu óvinsælar í fyrstu. Við þurfum leiðtoga sem standa á sínum málum og gildum, leiðtoga sem taka erfiðu samtölin til að leysa vandamál frekar en að viðhalda lífi í ónýtu sambandi bara til að vera áfram við völd.
Miðflokkurinn hefur staðið sína vakt í mörg ár í málaflokkum sem aðrir flokkar eru nú fyrst að taka upp þegar neyðin er orðin mikil. Í mörg ár hefur flokkurinn varað við alvarlegum afleiðingum óheftra útgjalda ríkisins, óreiðu á landamærunum, stefnuleysi í húsnæðismálum og aðgerðaleysi í orkumálum. Fyrir vikið hafa fjölmiðlar og lyklaborðsriddarar úthrópað flokkinn. Í dag eru þetta þó orðin helstu málefni næstu kosninga. Fái Miðflokkurinn umboð þjóðarinnar til þess að endurreisa þessa málaflokka munum við ekki gefa hverjum sem er rós bara til að fá völd. Við munum leyfa raunveruleikaþáttum að sjá um dramað á meðan við leysum raunveruleg vandamál til að byggja upp betra Ísland og þar munar um Miðflokkinn.
Höfundur er varaformaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.