Nú eru uppi áform um að stækka spítalasvæðið við Hringbraut og ekkert skrítið enda ljóst að spítalinn verður orðinn of lítill um leið og hann er tilbúinn.  Samhliða er gert ráð fyrir því að hægja á umferð um Hringbraut sem væntanlega hefur þau áhrif að enn meiri flöskuháls safnast upp austur eftir Miklubraut.  Maður veltir því fyrir sér hvernig stjórnvöld ríkis og borgar sjá fyrir sér að veikt fólk úr Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og Úlfarsárdal, Grafarvogi, Kjalarnesi, svo ekki sé minnst á nágrannasveitarfélögunum komist með hraði á spítalann í framtíðinni.  Það er ljóst að þegar borgarlínan kemur, sem fjallað er um í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna og ríkisstjórnin ætlar að styðja við, þá hverfur ein af þeim akreinum sem fyrir eru og hægjast mun á allri bílaumferð og flöskuhálsum fjölga enn frekar.  Ráðherra heilbrigðismála og samgönguyfirvöld í borginni hljóta að þurfa að svara ofangreindri spurningu sannfærandi vegna ábyrgðar sinnar á málinu.  Borgin ber ábyrgð á umferðarmannvirkjum í borginni og umferðarflæði þannig að fólk komist leiðar sinnar, svo ekki sé nú talað um sjúkrabíla.

Það hlýtur líka að vera komið að því að stjórnvöld svari því hvort þær forsendur sem liggja fyrir staðarvali spítalans við Hringbraut þegar lítur að umferðarmannvirkjum eins og mislægum gatnamótum, Sundabraut, göngum hingað og þangað að svæðinu o.s.frv. séu eða verði raunverulega til staðar þegar spítalinn verður tilbúinn, til þess að tryggja sjúklingum og sjúkrabílum greiða leið.

Hvernig ætla stjórnvöld að tryggja að forsendurnar sem eru tíundaðar sem forsendur fyrir staðarvalinu mörg ár aftur í tímann verði til staðar?  Hvernig á að framkvæma þær út frá öllum þeim þéttingum á byggð, fækkun bílastæða og þrengingum á umferðarmannvirkjum sem nú þegar eru komnar til framkvæmda, sem og þeim sem eru fyrirhugaðar ásamt tilkomu borgarlínu, með enn frekari þrengingum að umferð?  Þetta er orðið áhyggjuefni fyrir borgarbúa þegar þarf að koma bráðveikum sjúklingum á spítalann.  Ef forsendur fyrir staðarvali við Hringbraut eru í raun réttri brostnar er þá ekki heiðarlegra að viðurkenna það og byggja spítalann á nýjum stað!

Höfundur er austurborgarbúi, landfræðingur og löggiltur fasteignasali