Lengi hefur verið deilt um staðsetningu Sundabrautar. Vegagerðin horfir fyrst og fremst í krónur og aura í stað gæða og nýtingar brautarinnar.  Það þarf ekki að deila um hve mikilvæg Sundabraut er fyrir landsmenn alla til að greiða fyrir samgöngum til og frá Reykjavík.

Brautin er nauðsynleg þegar kemur að þungaflutningum frá Sundahöfn en þar er mikið magn vöruhótela sem þurfa að koma vörum sínum beint út á land.  Mikilvægt er að samgöngur frá þessu svæði séu greiðar og þurfi sem minnst að fara um götur borgarinnar vegna álags á gatnakerfið og tafa á umferð. Að auki er ferðamannastraumurinn mikill til og frá Hörpu og er þá Sundabraut mikilvægur þáttur í að koma þeirri umferð beint til og frá borginni.  Sundabraut gegnir veigamiklu hlutverki til framtíðar þegar litið er til þróunar byggðar í borginni og með uppbyggingu Geldinganess í nánustu framtíð og umferðar frá nærliggjandi sveitarfélögum þegar litið er til vesturs.  Fyrir 20 árum síðan sameinuðust Reykjavík og Kjalarnes og var þá Kjalnesingum lofað að hafin yrði lagning Sundabrautar tveimur árum síðar. Ekkert bólar á þeim áformum og er mikil óánægja með þessi svik á Kjalarnesi og ekki nema von.

Miðflokkurinn vill koma Sundabraut strax í framkvæmd og að skipuleggja íbúðabyggð og atvinnustarfsemi í Geldninganesi ásamt framlengingu á svæði fyrir vöruhótel og hafnartengda starfsemi á þann hátt að Sundabrautin tengi þetta stóra og mikilvæga atvinnusvæði.  Byggð í Geldinganesi er ekki ný hugmynd en þarf óneitanlega að tengjast framkvæmd Sundabrautar enda má hæglega nýta efni úr einni framkvæmd í aðra og spara þannig framkvæmdarkostnað sem og umferð á framkvæmdartíma um Grafarvoginn.

Miðflokkurinn í Reykjavík vill ekki að farin verði svokölluð innri leið með Sundabraut enda myndi hún beina allir umferð inn á umferðarhnútinn sem þegar er á Sæbraut við Voga og ekki síst beina umferðinni inn í Vogahverfið sjálft til óþæginda fyrir íbúa þar.  Sú hugmynd að beina umferðinni í gegnum Grafarvoginn íbúum þar til mikils ama kemur heldur ekki til greina að okkar hálfu.  Við viljum tengja Sundabraut annað hvort við svæðið við Klepp frá Geldinganesi og áfram þaðan með nauðsynlegum breytingum á Sæbraut eða eins og margir telja bestu lausnina að koma upp í tvískiptum göngum annars vegar við Laugarnes og hins vegar við hafnarsvæðið.  Báða þessa möguleika þarf að ígrunda hratt og vel og velja þá leið sem best er fyrir umferðarflæði og notkun brautarinnar.  Koma þarf í veg fyrir að skipulag á þessum svæðum nú eyðileggi lagningu Sundabrautar með öllu.  Ákvörðun sem þessi á ekki að þurfa að taka svona langan tíma og Vegagerðin á að hafa fleiri þætti að leiðarljósi en kostnað þegar kemur að lagningu slíkra stoðbrauta í höfuðborginni.

Sundabrautin ásamt Skerjabraut út á Álftanes og því að byggja upp nýjan spítala við Keldur/Keldnaholt er lykillinn að því að létta á og bæta umferðarflæði í höfuðborginni.  Sundabrautin gegnir einnig veigamiklu öryggishlutverki ef hamfarir verða á eða við höfuðborgarsvæðið.  Eins og málum er háttað nú er aðeins hægt að komast upp Ártúnbrekku en það er mjög lágt hlutall borgarbúa sem kemst þá leið og hætt við að þar sitji allt fast eins og á álagstímum almennt.  Með tilkomu Sundabrautar breytist þetta til batnaðar þó flugvöllurinn í Vatnsmýri muni áfram gegna veigamiklu öryggishlutverki.  Einungis ef framkvæmdir að Sundabraut ganga eftir er hægt að fara að ræða stokkalausnir á Miklubraut og borgarlínudrauma en þær framkvæmdir eru í fjarlægri framtíð enn og mörgum spurningum um þær enn ósvarað.  Það er einfaldlega ekki er hægt að nánast stöðva umferð eftir endilangri borginni á meðan og allra síst á meðan spítalinn er staðsettur við Hringbraut.  Það er einfaldlega ekki boðlegt lengur að bílalestin liðist í hægagangi alla leið upp að Hvalfjarðargöngum með tilheyrandi mengun og sóun á tíma fólks.  Við viljum greiðar samöngur sem þýðir styttri ferðatíma og minni mengun.

Vilborg G Hansen og Baldur Borgþórsson eru íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal og skipa 2. og 3. sæti  á lista Miðflokksins í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum