Fréttabréf Miðflokksins

5. desember 2017

Fréttir

 

Þingflokkur Miðflokksins kýs sér stjórn.

Þingflokkur Miðflokksins hefur kosið sér stjórn. Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Suðvesturkjördæmis er formaður þingflokks Miðflokksins en með honum í stjórn þingflokksins sitja Bergþór Ólason þingmaður Norðvesturkjördæmis og Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Norðausturkjördæmis. Nánari upplýsingar um þingflokk Miðflokksins, netföng og samfélagsmiðla þingmanna er að finna á http://midflokkurinn.is/

Hólmfríður og Jóhannes Þór ráðin til starfa með Miðflokknum á Alþingi.

Tveir nýir starfsmenn hafa bæst í hópinn og munu starfa á Alþingi með þingflokki Miðflokksins, Jóhannes Þór Skúlason sem aðstoðarmaður formanns Miðflokksins og Hólmfríður Þórisdóttir sem ritari þingflokks Miðflokksins. Hólmfríður hefur setið í stjórn flokksins en víkur þaðan frá og með 1. desember er hún tekur við starfinu. Flokksmenn eru hvattir til að hafa samband við þau Jóhannes og Hólmfríði með hugmyndir, ábendingar og spurningar eins og þörf er á.

Hólmfríður Þórisdóttir
holmfridurth@althingi.is
699-0450

Jóhannes Þór Skúlason
johannesthor@althingi.is
690-9414

Opinn fundur með formanni flokksins á Akureyri 28. Nóvember – opnir fundir í byrjun árs 2018.

Húsfyllir var á opnum fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í húsakynnum Rauða krossins á Akureyri 28. nóvember síðastliðinn. Einhugur var meðal fundargesta um að í kjölfar frábærs árangurs í Alþingiskosningum sé nauðsynlegt að ýta úr vör öflugu félagsstarfi, á Norðurlandi sem og um allt land. Stutt er í sveitarstjórnakosningar og mikilvægt að málefnastarf og annar undirbúningur fyrir þær hefjist fyrr en síðar. Formaður flokksins sagði á fundinum m.a. frá þeirri undirbúningsvinnu sem hefur átt sér stað varðandi skipulag flokksins og tók heilshugar undir nauðsyn sterks félagsstarfs.

Eftir áramót munu formaður flokksins og þingmenn halda fundi um allt land, en upplýsingar um fundatíma og staði verða sendar út um leið og þær liggja fyrir. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn flokksins varðandi hugmyndir um fundi.

Stöðugar skráningar í Miðflokkinn.

Á nýjum vef Miðflokksins (http://midflokkurinn.is) er boðið upp á að fólk geti skráð sig í flokkinn í gegn um vefinn. Það er mjög ánægjulegt að skráningar berast daglega, bæði í gegn um vefinn og með tölvupósti á midflokkurinn@midflokkurinn.is. Við hvetjum félagsmenn til að benda áhugasömum á þessar leiðir til að skrá sig, fá upplýsingar og taka þátt í starfinu.

Á næstu vikum munum við hafa samband við skráða félagsmenn í þeim tilfellum þar sem einhverjar upplýsingar vantar upp á fulla skráningu, s.s. netfang, til að tryggt sé að upplýsingar um starfið berist til allra félagsmanna.

Upplýsingar um skipulag félagsstarfs til bráðabirgða og undirbúning fyrsta landsþings Miðflokksins

 

Grunnur að skipulagi félagastarfs Miðflokksins og stofnun félaga/deilda.

Eins og fram kom í nýlegu bréfi frá formanni er stefnt að því að boðað verði til fyrsta landsþings Miðflokksins í mars 2018. Þar verða formleg lög flokksins samþykkt og skipulagi innra starfs komið í fastar skorður. Fram að því mun verða stuðst við bráðabirgðaskipulag sem gerir ráð fyrir því að eitt kjördæmafélag starfi hverju kjördæmi (þó eitt fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö) og innan þeirra starfi deildir eða staðarfélög þar sem félagsmenn vilja stofna til þeirra.

Gert er ráð fyrir því að fyrir kjördæmafélögin fimm verði stofnuð formlega eða þeim settar bráðabirgðastjórnir fyrir 1. janúar 2018. Upplýsingar um það verða sendar út til félagsmanna þegar þar að kemur svo að allir hafi möguleika á að taka þátt í starfinu og til að auðvelda uppbyggingu félagsstarfs í hverju kjördæmi. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðastjórnir starfi ekki lengur en til 1. mars 2018, en fyrir þann tíma verði haldnir formlegir aðalfundir í öllum kjördæmafélögunum með formlegri kosningu stjórnar. Helstu hlutverk kjördæmafélaga nú í upphafi er að styðja við félagsstarf innan viðkomandi kjördæmis, aðstoða við stofnun staðarfélaga og ýta úr vör í samráði við félagsmenn í kjördæminu undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fara vorið 2018.

Félagsmenn um allt land eru hvattir til að stofna til samtals um félagsstarf á sínum svæðum og hafa um það samband við þingmenn kjördæmisins, frambjóðendur á listum til Alþingiskosninga, tilvnonandi stjórnir kjördæmafélaga og starfsmenn flokksins ef þörf er á. Vinsamlegast sendið upplýsingar um stofnun staðarfélaga á midflokkurinn@midflokkurinn.is

Undirbúningur málefnastarfs og skipulags flokksins fyrir landsþing í mars 2018

Eitt af markmiðum Miðflokksins er að félagsmenn hafi jafna möguleika á að leggja inn hugmyndir og taka þátt í mótun málefnastarfs og skipulags flokksins. Með það í huga verða settir á stofn málefnahópar sem félagsmenn geta skráð sig í eftir áramótin þar sem teknar verða saman hugmyndir og unninn grunnur að málefnastefnu sem lögð verður fyrir fyrsta landsþing flokksins í mars. Frekari leiðbeiningar um þátttöku í málefnastarfi verða sendar til allra félagsmanna í upphafi ársins 2018.

Stjórn flokksins óskar einnig eftir hugmyndum og ábendingum frá félagsmönnum varðandi innra starf og skipulag flokksins. Þær má gjarnan senda með tölvupósti á midflokkurinn@midflokkurinn.is merkt, „Innra starf 2018“.

Þegar liggja fyrir grunntillögur að skipulagi og unnið verður úr þeim ásamt hugmyndum og ábendingum sem berast í samvinnu við stjórn, þingflokk og flokksráð Miðflokksins. Tillögur að lögum og skipulagi flokksins verða svo lagðar fyrir fyrsta landsþing hans í mars 2018.

Flokksráð og Landsþing.

Gert er ráð fyrir því að í Miðflokknum muni starfa flokksráð og að fyrsti fundur þess verði haldinn á fyrri hluta árs 2018 (fyrir landsþing).

Eins og annað er varðar skipulag flokksins verður endanleg skipan þess ákvörðuð á fyrsta landsþingi flokksins en fram að því er gert ráð fyrir að í flokksráði sitji stjórn flokksins, stjórnir kjördæmafélaga og formenn staðarfélaga eða -deilda, kjörnir þingmenn og efstu fjórir frambjóðendur á listum til síðustu alþingiskosninga, kjörnir sveitarstjórnarmenn og efstu tveir frambjóðendur á listum til síðustu sveitarstjórnarkosninga, átta aðilar sem stjórn tilnefnir og þrír aðilar tilnefndir af hverju kjördæmafélagi.
Á fyrsta fundi flokksráðs verður tekin ákvörðun um dagsetningu fyrsta landsþings Miðflokksins, fulltrúafjölda, dagskrá og annað sem nauðsynlegt er til að gera þingið vel og skipulega úr garði.

Félagsmenn eru hvattir til að senda inn hugmyndir og ábendingar varðandi skipan flokksráðs, skipulag landsþings og aðra þætti innra starfs flokksins. Ábendingar berist á midflokkurinn@midflokkurinn.is merkt „Innra starf 2018“.

Nýlegar greinar

Vegurinn verður lokaður í vetur!
Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson
„Ferjan Baldur er oft kölluð brúin yfir til Vestfjarða.“ segir á heimasíðu Sæferða, rekstaraðila Breiðafjarðarferjunnar. Sú ótrúlega staða er nú uppi að önnur af tveimur samgönguleiðum á milli sunnanverðra Vestfjarða og Vesturlands er lokuð um ótilgreindan tíma.
Smellið til að lesa…

Þarf endilega að klára hringavitleysuna við Hringbraut?
Anna Kolbrún Árnadóttir
Nú lítur út fyrir að engin breyting verði á fyrirhugaðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut þrátt fyrir að bent hafi verið á ítrekað að allar forsendur fyrir staðarvali séu brostnar. Nú nýverið kynnti formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar nýja byggð sem mun rísa á svokölluðum Kringlureit, byggð sem kallar á aukna umferð.
Smellið til að lesa…

Niðurstaðan í Landsdómsmálinu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu breytir í engu þeirri meginniðurstöðu að Geir vann landsdómsmálið og landsdómur staðfesti fáránleika þess að meirihluti Alþingis skyldi ákæra fyrrverandi ráðherra með það að markmiði að koma honum í fangelsi fyrir pólitísk störf.
Smellið til að lesa…

Veiðigjöldin hækka yfir 100% í þorsk og ýsu
Sigurður Páll Jónsson

Lagfæringar á veiðigjaldakerfinu eru því bráðnauðsynlegar enda hefur skattlagning sem kemur verst niður á minni og meðalstórum útgerðum langmest áhrif á smærri sjávarbyggðir landsins þar sem þær eru gjarnan mikilvægur stólpi í atvinnulífi í byggðarlaginu. Því hefur gallað kerfi ekki bara óæskileg áhrif á atvinnugreinina sjálfa heldur allt nærumhverfi hennar líka.
Smellið til að lesa…

Viðburðir framundan

  1. desember
    Stofnfundur Miðflokksfélags Suðurkjördæmis
    Selfossi – Tryggvaskála kl. 20:00Vinsamlegast sendið upplýsingar um viðburði framundan á midflokkurinn@midflokkurinn.is til að hægt sé að auglýsa þá í fréttabréfi Miðflokksins, vef og samfélagsmiðlum.

 

Smelltu læk á Miðflokkinn á facebook: http://facebook.com/midflokkur og taktu þátt í umræðunni.