Kæru félagar.

Ástæða er til að byrja á að ítreka þakkir og hamingjuóskir vegna frábærrar vinnu fyrir kosningar og árangursins sem varð eftir því. Enginn nýr flokkur hefur náð eins miklu fylgi í fyrstu tilraun eða verið byggður upp á eins skömmum tíma.

Eftir kosningar tók við óvissutímabil á meðan gerðar voru tilraunir til að mynda ríkisstjórn. Við í þingflokknum töldum rétt að halda okkur að miklu leyti til hlés í opinberri umræðu á meðan viðræður stóðu yfir. Við höfum þó notað tímann til að undirbúa þingstörfin fram undan og næstu skref hjá flokknum.

Í kosningabaráttunni boðuðum við skýra stefnu og framtíðarsýn. Við kynntum áætlun um hvernig nýta mætti einstök tækifæri sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Tækifæri sem koma ekki aftur ef við nýtum þau ekki núna.

Ljóst er að sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við völdum og kynnt stefnu sína hefur engin áform um að sækja fram og taka á þeim stóru og brýnu málum sem bíða. Þess í stað verður ástand og þróun sem við töldum nauðsynlegt að breyta fest í sessi.

Til stendur að taka óafturkræfar ákvarðanir um framkvæmdir við Landspítalann án þess að meta hvort æskilegra sé að byggja nýjan spítala í betri stað. Þegar gert er ráð fyrir að taka nýbyggingu spítalans í notkun verður þarfagreiningin sem hún byggist á orðin 30 ára gömul. Nýja húsið verður því 30 árum á eftir þörfum tímans og eldri húsin allt að 100 árum á eftir.

Við höfðum skapað einstakt tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi og gert grein fyrir því hvernig hægt væri að ljúka þeirri vinnu lið fyrir lið þ.a. afraksturinn yrði heilbrigt fjármálakerfi og eðlilegt vaxtastig. Ríkisstjórnin virðist ekki leggja í það verkefni. Á meðan heldur öfugþróunin áfram meðal annars með yfirtöku vogunarsjóða á Arion banka, í annað skipti, eftir að ríkið tók forræði og óbeint eignarhald á bankanum 2015. Afleiðingin verður sú að umfram-eigið fé bankans rennur til vogunarsjóðanna sem leggja undir sig bankann.

Í byggðamálum virðist eiga að halda áfram smáskammtalækningum síðustu áratuga í stað þess að ráðast í þá miklu sókn sem við höfðum lagt drög að og gert mögulega.

Eldri borgarar og aðrir hópar samfélagsins sem dregist hafa aftur úr í kjörum þurfa enn að bíða í óvissu um hvort komið verði til móts við þá.

Það mun því ekki veita af því að Miðflokkurinn beiti sér í stjórnarandstöðu. Að sjálfsögðu munum við styðja allt sem við teljum til bóta en hlutverk okkar verður ekki hvað síst að halda áfram leitinni að betri lausnum og berjast fyrir því að þær verði að veruleika.

Við munum ekki gefast upp á baráttunni fyrir nokkru einasta mikilvægu máli á meðan enn er von til þess að færa það í rétta átt.

Höfum hugfast að ríkisstjórnin tekur við betra efnahagsástandi en nokkur ríkisstjórn hefur gert á Íslandi og gleymum því ekki hvernig sú staða varð til. Hún náðist ekki með því að leggja árar í bát og passa sig fyrst og fremst á því að bátnum yrði ekki ruggað. Nei, þvert á móti. Árangurinn náðist vegna þess að við þorðum að taka stórar og umdeildar ákvarðanir og vinna svo þrotlaust að því að þær skiluðu árangri.

Nýmynduð ríkisstjórn nú hefur lýst því yfir að sá árangur verði nýttur til ýmissa þarfra verkefna. Komið hefur fram að meðal annars muni umfram-eigið fé Landsbankans og Íslandsbanka nýtast ríkissjóði vel (þ.e. bankanna sem stjórnvöld eru ekki búin að missa úr höndunum). Gott hefði verið að hafa stuðning þess sama fólks þegar við fengum að heyra að hugmyndir miðjumanna um hundruða milljarða framlög bankanna væru poppúlismi og óframkvæmanleg vitleysa. Aðalatriðið er að skynsemi ráði för í framhaldinu. Árangurinn sem þegar hefur náðst er afrakstur gríðarmikillar vinnu í mörg ár. Við verðum að vera tilbúin til að leggja á okkur mikla vinnu til að tryggja að vel verði farið með ávinninginn og áframhaldandi árangur byggður á honum.

Flokknum okkar, flokknum sem var óumdeildur sigurvegari kosninganna, var haldið utan stjórnarmyndunarviðræðna af flokkum sem töldu að lífið í ríkisstjórn yrði auðveldara og þægilegra án okkar. Þeir vissu að ólíkt mörgum öðrum var okkur alvara með þau stóru fyrirheit sem við gáfum í kosningabaráttunni og að erfitt yrði að fá okkur til að slá af þeim.

Það var rétt mat að ómögulegt hefði verið að fá okkur til að taka þátt í myndun „stólaskiptastjórnar“ um kyrrstöðu og það var líka rétt mat að innan stjórnar hefðum við gert miklar kröfur og haldið mönnum við efnið eins og áður. En stjórnarflokkarnir eiga eftir að komast að því að þeir eru hvorki lausir við okkur né málin sem við berjumst fyrir þótt við séum utan ríkisstjórnar.

Nú bíður okkar mikið og skemmtilegt starf við að byggja upp flokkinn. Ég hvet ykkur öll til að taka sem mestan þátt í því og kynna ykkur þau áform sem rakin eru í nýútkomnu fréttabréfi.

Ég hlakka til að vinna að uppbyggingarstarfinu með ykkur og sjá árangurinn sem við ætlum að skila samfélaginu.

 

Kær kveðja,

Sigmundur Davíð