Ný ríkisstjórn er sögð byggja á breiðri samstöðu frá hægri til vinstri og yfir miðju.  Það er hamrað á því að slíkt sé ráðlegt nú þar sem nauðsynlegt sé að hafa breiða samstöðu um stór mál í samfélaginu. En er þetta breið samstaða?  Fyrir mér er þessi ríkisstjórn mun líkari eldfimri púðurtunnu en breiðri samstöðu og þar vísa ég til baklands Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.  Það tók langan tíma að mynda þessa ríkisstjórn því það þurfti að semja um stóru málin til þess að reyna að koma í veg fyrir uppþot næstu fjögur árin.  En tókst það?  Tveir úr þingflokki Vinstri grænna eru í raun ekki með og hafa sagst vera andsnúnir ríkisstjórnarsamstarfinu.  Þar með er ríkisstjórnin ekki með 35 manna meirihluta heldur 33 sem er lítið meira en ríkisstjórnarsamstarfið sem formaður Framsóknar hafnaði vegna þess að það var of tæpt!  Ég hef raunar miklar efasemdir um þessa ríkisstjórn, enda þrátt fyrir að hægt sé að vera sammála um málefni þá er leiðin að málefnunum það sem aðskilur hægri og vinstri flokkana í íslenskum stjórnmálum.  Leiðin þ.e. framkvæmdin að málefnunum aðskilur hægri og vinstri hugmyndafræði.

Það vilja allir efla heilbrigðiskerfið, byggja nýjan spítala, að þeir veikustu greiði minna, efla ferðamennsku, byggja upp innviði o.s.frv.  En hvernig á að framfylgja þessum markmiðum?  Hvaða leið er best að þeim er nefnilega allt annar handleggur.  Eitt eiga þessir flokkar þó sameiginlegt og það er að byggja nýjan spítala við Hringbraut þrátt fyrir að allar forsendur séu brostnar fyrir þeirri staðsetningu.  Allar!  Reyndar sagði fulltrúi Framsóknar á fundi með Samtökunum Betri spítali í Norræna húsinu þann 19.október s.l. að Framsókn hefði skipt um skoðun í málinu og vildi nú spítalann á nýjum stað, en það hefur ekki farið hátt í stjórnarmyndunarviðræðunum þrátt fyrir að góð rök væri að verja.

Mér er til efs að bakland Sjálfstæðisflokksins verði ánægt ef nýr heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fer sínu fram og stígur á einkarekna kerfið í heilbrigðisþjónustu og heilsugæslum landsins sem fyrir er.  Maður spyr sig líka hvort við eigum von á því að góð en dýr lyf verði tekin af markaðnum eins og síðast þegar Vinstri græn voru með þetta ráðuneyti eftir hrun.  Eitt ríkislyf fyrir alla!

Síðan er það stóra spurningin; hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að haga kosningabaráttu sinni í borgarstjórnarkosningum í vor þegar kemur að flugvelli landsmanna í Vatnsmýri, en Vinstri græn sem leiða ríkisstjórnina vilja að hann fari þaðan ásamt hinum vinstri flokkunum.  Mun Framsókn beita sér fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri á meðan Vinstri græn leiða ríkisstjórnina?  Ekki gleyma því að á næsta kjörtímabili í borginni er síðasta tækifærið til að breyta aðalskipulaginu þannig að völlurinn verði áfram.  Síðasta tækifærið!  Verður það trúverðugt þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sem samþykktu núverandi aðalskipulag sem sendir flugvöllinn burt og stendur fyrir þéttingarstefnu sem aldri fyrr, lofa því í vor að þeir vilji völlinn áfram og hverfa frá þéttingarstefnunni.  Þeir sögðust vilja völlinn áfram síðast, en samþykktu svo aðalskipulag sem skipulagði hann burt!

Ef spár margra ganga eftir um að þessi ríkisstjórn verði ríkisstjórn kyrrstöðu næstu fjögur árin, þá hitnar verulega undir henni fljótlega enda mörg mál sem þola akkúrat enga bið.  Við kjósendur verðum hins vegar að bíða og sjá og vera tilbúin að ganga til kosninga á ný ef svo verður.

Ykkur sem rákust á þennan pistil og lásuð hann óska ég gleðlegra jóla, farsældar og friðar á nýju ári sem vonandi gefur okkur nýjan meirihluta í borginni.

Höfundur er íbúi í Austurborginni, landfræðingur og löggiltur fasteignasali.