Hversu mikið sem maður veltir fyrir sér hvernig réttlætanlegt sé að byggja við úrelt og skemmd hús Landspítalans við Hringbraut er ekki hægt að sjá skynsemina í því. Þetta hefur verið mín skoðun og eftir að hafa farið á opinn fund Samtaka um betri spítala á betri stað í Norræna húsinu þann 19. október 2017 varð sannfæringin enn meiri.

Að mínu mati og margra annarra, bæði sérfræðinga og meirihluta starfsfólks spítalans, er gríðarlega mikilvægt að hætta við þessi áform. Niðurstöður skýrslna sem styðja ákvörðun um stækkun LSH við Hringbraut byggja á löngu brostnum forsendum og jafnvel forstjórinn sjálfur sgði í ræðu sinni á fundinum að framkvæmdin yrði úrelt innan fárra ára vegna hraðrar framþróunar í hjúkrunar- og læknavísindum.

Að tengja saman um 20 byggingar á ýmsum aldri, úreltar, myglaðar með tuga metra löngum glerbyggingum og jarðgöngum – ekki þarf sérfræðiþekkingu til að sjá hversu mikið glapræði það er. Hilmar Þór Björnsson arkitekt fór yfir samgöngulegan forsendubrest. Í hans máli kom eftirfarandi fram:

Þegar ákveðið var árið 2001 að byggja við gamla Landspítalann var gerð samgönguáætlun sem yrði að gera samhliða og yrði þeim framkvæmdum lokið þegar nýr spítali hefði starfsemi.

  • Fjöldi mislægra gatnamóta víðsvegar um borgina.
  • Miklabraut komin í stokk.
  • Sundabraut komin.
  • Jarðgöng fyrir bílaumferð komin undir Öskjuhlíð.
  • Ný samgöngumiðstöð risin á þeim stað sem BSÍ stendur.

Hvað af þessu er komið? Ekkert!

Stækkun LSH hangir alfarið saman við Borgarlínuna. Borgarlínan verð- ur eins og Harpa, svo dýr í framkvæmd og rekstri að hún verður ætíð mikil byrði á skattgreiðendum. Allt umhverfi er mjög mikið breytt í Reykjavík með þeim ferðamannastraumi og aukna íbúafjölda borgarginnar sem engan veginn var gert ráð fyrir árið 2001. Gatnakerfið í miðbænum er löngu sprungið eins og allir vita. Starfsfólki LSH við Hringbraut mun fjölga um 1500 manns en bílastæðum mun fækka um 60%.

Á sama fundi sýndi Guðjón Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur fram á gríðarlegan sparnað af því að reisa nýjan spítala á betri stað, bæði minni byggingakostnaður og svo mun minni rekstrarkostnaður. Hann benti einnig á að skemmri tíma tekur að reisa nýjan spítala á betri stað en stækkun LSH við Hringbraut.

Læknar og hjúkrunarfólk sem starfa á LSH eru svo til alfarið fylgjandi nýjum spítala á nýjum stað. Vilhjálmur Ari Arason læknir á bráðamóttöku Landspítala sagðist á fundinum tala fyrir hönd margra kollega sinna og samstarfsfólks á LSH, að beitt hefði verið þöggun í sambandi við þetta mál í mörg ár og mikilvægum spurningum aldrei verið svarað. Undir þetta tók það starfsfólk spítalans sem statt var á þessum fundi og því var augljóslega nokkuð heitt í hamsi.

Stöðvum þessa vitleysu, tökum Sigmund á þetta og byggjum nýjan spítala á betri stað. Keldnaholt er ákjósanlegur staður fyrir nýjan spítala og tryggir að þessi stærsti vinnustaður landsins verði áfram innan borgarmarkanna.

Höfundur er í Miðflokknum í Reykjavík.