Stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Miðflokksins, Akureyri 3. nóvember 2018

Á hundrað ára fullveldi Íslands virðist ríkisstjórn landsins fyrirmunað að gera það eina sem þjóðin krefst af henni, það er að verja fullveldið, fullveldið sem svo margir lögðu svo mikið á sig til að öðlast.

Á hundrað ára fullveldisafmæli virðist allt benda til þess að ríkisstjórnin ætli sér að innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þrátt fyrir ótal viðvaranir, heimanfrá og að utan.  Það er ótækt að jafn stórt hagsmunamál og hér um ræðir sé látið reka á reiðanum af starfandi stjórnvöldum.  Að líkindum í trausti þess að málið, sem kallar á verulegt fullveldisframsal, renni í gegnum ríkisstjórn og Alþingi, án þess að til varna verði tekið.

Slík framganga kemur ekki á koma á óvart hjá ríkisstjórn sem hefur það sem sitt helsta markmið að tryggja ráðherrastóla.

Í málefnum landbúnaðarins skín áhugaleysið gagnvart fullveldinu.  Rök er snúa að heilnæmi innlends landbúnaðar eru afgreidd sem forpokuð, rök sem snúa að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð eru afgreidd sem afturhaldssöm og sögð merki um þjóðernishyggju.  Tilfinningin fyrir stolti gagnvart eigin þjóð og því sem hún hefur áorkað virðist hið mesta blótsyrði.

Á undanförnum árum hefur áhersla íslenskra stjórnmálamanna færst frá því að ná árangri fyrir umbjóðendur sína, yfir í það að á engan slettist, enginn þurfi að rökræða sig að niðurstöðu, enginn verði undir og enginn þurfi að bakka.  Innlend stjórnmál hafa breyst í eitt stórt Pollamót, þar sem allir fá að vera með og enginn þarf að standa fyrir máli sínu og því síður að verða undir á markaðstorgi hugmynda.

Á grundvelli hugmynda verða stjórnmálaflokkar til, og það fólk sem safnast til starfa er þar til að hafa áhrif.  Áhrif til að bæta samfélagið.  Færa það í þá átt sem stefnan býður.

Við Íslendingar eigum að vera stolt af því samfélagi sem forfeður okkar byggðu upp af dugnaði og eljusemi.  Við eigum að vera stolt af þeim auðlindum sem við nýtum, hvort sem það eru fiskistofnar lögsögunnar, jarðirnar sem bændur, vörslumenn landsins erja, bláir akrar fjarða landsins, fallvötnin eða þau óteljandi tækifæri sem við stöndum frammi fyrir með því hugviti sem í þjóðinni býr.

Við eigum að styðja við atvinnulífið með hóflegum sköttum og skynsamlegu regluverki.  Öflugt velferðarsamfélag getur ekki þrifist án öflugs atvinnulífs. Við eigum að verðlauna dugnað, á sama tíma og við styðjum við og verjum þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Heildarskattheimta er í dag með því hæsta sem þekkist á meðal vestrænna þjóða.  Sú þróun hefur orðið á vakt Sjálfstæðisflokksins. Af þeirri leið verðum við að snúa, með það fyrir augum að auðvelda fyrirtækjum að vaxa og dafna og tryggja það að fjölskyldur landsins geti sjálfar varið sem mestu af sínu sjálfsaflafé. Í þessum efnum leggur flokksráðsfundurinn til:

Tafarlausa lækkun á tryggingagjaldi, umfram þá takmörkuðu lækkun sem ríkisstjórnin hefur boðað.

Flokksráðsfundurinn skorar á ríki og sveitarfélög að tryggja nægt lóðaframboð og að lóðaverð endurspegli raunkostnað.

Í komandi kjarasamningum er ljóst að lögð verður áhersla á nokkur atriði sem ríkisvaldið getur lagfært. Má þarf nefna húsnæðismál og afnám verðtryggingar. Miðflokkurinn tekur undir áherslur verkalýðshreyfingarinnar varðandi þau atriði.

 

Miðflokkurinn leggur til heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Mæta verður kröfum aldraðra um sanngjarna framfærslu. Öryrkjar, aldraðir og aðrir eiga alltaf rétt á að búa við mannlega reisn.

Mótuð verði raunhæf stefna í geðheilbrigðismálum, ljóst er að núverandi fyrirkomulag gagnast ekki þeim sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda.

 

Miðflokkurinn ætlast til að orkunni og aflinu veði varið í uppbyggilega hluti, í verkefni sem skila okkur fram á veginn, í verkefni sem auka verðmætasköpun.  Tökum höndum saman um uppbyggingu innviða, þar sem svo mikið vantar upp á.  Sameinumst um hóflega yfirbyggingu hins opinbera.  Tryggjum að það sem ríkið hefur úr að spila fari þangað sem þörfin er brýnust.  Markmiðið á að vera það að allir landsmenn hafi það betra á morgun en þeir höfðu í gær.

Fyrir þessa hluti stendur Miðflokkurinn.  Við erum komin til að vera!

Categories: Fréttir