Margt hefur verið sérkennilegt við yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður. Skýringar hafa fengist á sumu en annað verður sífellt undarlegra. Allt er þetta áhugavert fyrir áhugamenn um stjórnmál.

Komið hefur í ljós að viðræður vinstriflokkanna voru ekki bara leiksýning af hálfu Framsóknarflokksins heldur Vg líka.

Það liggur líka fyrir að stjórnarmynstrið er sérstakt áhugamál flokkseigenda flokkanna þriggja. Sumir þeirra reyndu með öllum tiltækum ráðum að koma á sams konar stjórn fyrir ári. Viðurnefnið „flokkseigendastjórnin“ er ekki úr lausu lofti gripið. Menn í þessum flokkum telja slíka ríkisstjórn best til þess fallna að efla þá hagsmuni sem eru þeim kærastir. Þar skjátlast þeim líklega ekki.

Ljóst er að starfandi formenn flokkanna þriggja þurfa allir á því að halda að komast í ríkisstjórn til að halda velli, þ.e. komast hjá því að verða settir af eða deyja (pólitískt) úr leiðindum. Óleyst er þó gátan um einkar óvenjulega hegðun Sjálfstæðisflokksins.

Formaður flokksins þráir nú að komast í ríkisstjórn með fólki sem hefur um langt skeið kallað hann glæpamann og öðrum verri nöfnum. Hann leitast við að koma til valda fólki sem gekk hart fram við að reyna að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í fangelsi, ásamt fjármálaráðherra flokksins. Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti. Full ástæða verður til að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með að ná þessum áfanga og að hafa tekist ætlunarverkið með því að beygja bæði grasrót eigin flokks og allan Sjálfstæðisflokkinn samtímis. Það er ekki lítið afrek.

Eftir allar hástemdu yfirlýsingarnar um hið óstjórntæka íhald hefur Vg nú ákveðið að veita Sjálfstæðisflokknum uppreist æru. Af fréttum að dæma virðist Vg auk þess ætla að leyfa formanni Sjálfstæðisflokksins að verða ráðherra í ríkisstjórninni þrátt fyrir fyrri efasemdir þar um. Þó virðist alls ekki víst að hann fái að halda utan um efnahagsmálin í fjármálaráðuneytinu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist raunar vera farþegi í allri þessari atburðarás og lætur fulltrúa samstarfsflokkanna um að útlista hvað er um að vera. Lofsverð hreinskilni formannsins birtist þó við upphaf viðræðnanna þegar hann útskýrði að stjórnarmyndunin snerist fyrst og fremst um að mynda sterka ríkisstjórn en ekki um stefnumál flokkanna.

Eftir að bent var á þetta tóku formaður og þingmenn Vinstri grænna reyndar að tönnlast á því að stjórnarmyndunin snerist aðallega um málefni. Varla gera þó margir utan þingflokksherbergis Vinstri grænna sér slíkar grillur. Eða er Vg að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum til að ná loksins fram áherslum sínum í skatta-, umhverfis-, innflytjenda- og jafnréttismálum?

Framsókn kom hins vegar með sína skýringu á því hvers vegna þetta væri einmitt rétta stjórnarmynstrið. Þar á bæ virðast menn reyndar eiga a.m.k. eina skýringu á því hvers vegna hvert og eitt stjórnarmynstur, sem inniheldur flokkinn, er einmitt hið eina rétta og svo aðra til að skýra hvers vegna það gekk ekki upp.

Eftir að í ljós kom að 32 þingmenn væru ekki mikið fleiri en 31 og viðræðum um myndun vinstristjórnar var slitið (þrátt fyrir að þær hefðu að sögn gengið mjög vel og samhljómur um málefni verið nánast fullkominn) var tekinn upp nýr frasi og ný skýring á nýju stjórnarmynstri. Nú var engum talsmanni Framsóknarflokksins hleypt í viðtal nema hann nefndi nokkrum sinnum mikilvægi þess að mynda ríkisstjórn með „breiða skírskotun“. Sem sagt, vinstri-samhljómurinn var ekki lengur málið og allt í einu orðið betra að blanda saman sem ólíkustum stefnum. Stefna Framsóknar var of lík stefnu Flokks fólksins og Miðflokksins og því þurfti að fara með flokki sem hefði allt aðra stefnu (annars gætu menn neyðst til að standa við kosningaloforðin).

Jafnharðan var þó útskýrt fyrir fólki að allt væri þetta auðvitað fyrst og fremst gert af einskærri fórnfýsi og í þágu almennings. Allt svo hægt væri að hlífa kjósendum við því að hlusta á stjórnmálamenn takast á um um stefnu.

Það er með öðrum orðum unnið út frá því að hver flokkur eigi sína kjósendur og kjósendurnir verði til friðs ef flokkarnir sem þeir tilheyra fá sína ráðherrastóla og ráðherrabíla. Þeir kjósendur sem töldu sig vera að kjósa stefnu sem barist yrði fyrir koma hér ekkert við sögu.

Til að útskýra þetta fyrir kjósendum eru notaðir frasar sem byrja á orðum á borð við „okkur stjórnmálamönnum ber skylda til…” og „á okkur hvílir sú ábyrgð…” en enda þó aldrei á orðunum „…að standa við það sem við lofuðum í kosningunum”.

Hvað sem líður þversagnakenndum skýringum, frösum og uppgerðar-auðmýkt blasir stóra myndin við. Í nýliðnum kosningum fékk Framsóknarflokkurinn minnsta fylgi í 101 árs sögu flokksins (og sló metið frá því í fyrra), Sjálfstæðisflokkurinn fékk næstverstu útreið frá upphafi (örlítið meira en í kosningunum 2009) og Vg tapaði kosningabaráttunni, missti nærri helming fylgisins (m.v. kannanir) á þremur vikum. Eðlislæg viðbrögð þeirra sem töpuðu kosningunum eru þau að hnipra sig saman og mynda skjaldborg um kerfið sem þeim leið vel í. Kaldhæðnin er þó sú að með því eru dregnar fram ástæður þess að þessir flokkar, rétt eins og aðrir kerfisflokkar víða um heim, eru að tapa fylgi.

Vandi gömlu stjórnmálaflokkanna liggur í því að stjórnmál eru farin að snúast allt of mikið um allt annað en málefni og stefnu. Kerfinu er eftir látið að stjórna og marka stefnu á meðan stjórnmálamenn og -flokkar keppa á grundvelli ímyndarstjórnmála og telja sér trú um að þeir hafi ráðstöfunarrétt yfir tilteknum þjóðfélagshópum. Þannig verður til hjá þeim sú hugmynd, hvort sem þeir trúa henni sjálfir eða ekki, að ef flokkar sem „eiga“ ólíka hópa skipta á milli sín ráðuneytum séu þeir þar með búnir að uppfylla óskir kjósenda og þurfi ekki að hafa áhyggjur af þeim næstu fjögur árin. Vinstrimenn fái sitt með því einu að fulltrúar þeirra fái sæti við ríkisstjórnarborðið og hægrimenn sitt, óháð því hvað gerist við borðið.

Ríkisstjórn mynduð á grundvelli ímyndarstjórnmála verður alltaf ríkisstjórn byggð á hégóma frekar en stefnu, ríkisstjórn um stólana sem menn sitja í en ekki verkefnin sem þeir ætla að vinna að. Slík stjórn er byggð á nálægð við völd en ekki málefnum, hvort sem menn reyna að skýra það með frösum á borð við „breiða skírskotun” eða hreinskilni Bjarna Benediktssonar um „sterka stjórn óháða einstaka málefnum flokkanna”.

Það sem gerir stjórnarmyndunina nú sérstaklega áhugaverða er að hún er ekki bara afleiðing nýafstaðinna kosninga heldur grundvallarbreytinga í stjórnmálum hér á landi og víðar. Breytinga sem hafa átt sér langan aðdraganda. Því meira sem kerfisflokkarnir hafa gefið eftir málefnin í skiptum fyrir stóla þeim mun meiru hafa þeir tapað. Meðfylgjandi súlurit sýnir hvernig meirihluti flokkanna þriggja (samanlagt fylgi), Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og sósíalista (Sósíalistaflokks, Alþýðubandalagsins og Vg) hefur þróast frá því að núverandi stjórnmálafyrirkomulag varð til á Íslandi. Þríeykið hefur aldrei staðið eins veikt og hangir nú rétt yfir 50% markinu.

Breytingin er mikil frá því að Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson hvöttu til „sögulegra sátta“, þ.e. ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags árið 1979. Þá snerist planið reyndar um að setja Steingrím Hermannsson (og Gunnar Thoroddsen) til hliðar. Þetta var í lok hins svo kallaða „Framsóknaráratugar“, en á þeim tíma var Framsóknarflokkurinn áhrifamikill í íslenskum stjórnmálum. Nú er útlit fyrir að markmiðið um bandalag Sjálfstæðisflokks og sósíalista náist með hjálp Framsóknarflokksins, og líklega ekki seinna vænna eins og myndin sýnir.

Hvaða máli skiptir það þá hvort menn kusu Sjálfstæðisflokk eða Vinstri græna? Niðurstaðan verður sú sama, „breið skírskotun“. Samstarf kynnt með yfirlýsingum um þau „miklu tímamót“ að flokkarnir ætli að vinna saman að þeim verkefnum sem allir flokkar eru sammála um hvort eð er. Betra heilbrigðiskerfi, betri menntun, meiri nýsköpun, betri kjör, efla þetta og bæta hitt. Starfshópar svo skipaðir til að svæfa stefnumál sem þarf að nefna til að nefna.

Allt er þetta fremur fyrirsjáanlegt en hér eru þrjú atriði sem spennandi verður að fylgjast með:

  1. Áhugaverðast við stjórnarsáttmálann verður að sjá hvort gerðar verða skattkerfisbreytingar. Þær munu sýna hvort hægrið eða vinstrið reyndist sterkara í viðræðunum.
  2. Munu flokkarnir undirstrika að um „stólastjórn” sé að ræða með því að fjölga ráðherrastólunum?
  3. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins gefur eftir bæði forsætisráðuneytið og efnahagsmálin má heita öruggt að hann ætli sér ekki að verða í framboði í næstu kosningum.

Og svo er það stóra spurningin: Verður ríkisstjórnin mynduð yfir höfuð?

Að öllum líkindum er svarið já.

Ástæðan er sú að stjórnarmynstrið er í senn fyrirsjáanleg afleiðing af úrslitum kosninganna og langtímaþróun stjórnmálanna á Íslandi og víðar. Þetta er líklega síðasta tækifæri kerfisflokkanna og flokkseigenda þeirra til að mynda slíka stjórn.

Spyrjið bara Nóbelsskáldið: